Björt framtíð er komin í mjög áhugaverða stöðu eftir kosningarnar.
Hún getur leikið þann gamla leik Framsóknarflokksins að starfa ýmist til hægri eða vinstri.
BF stendur til boða að verða í stjórn þriggja stærstu bæjarfélaga á Íslandi.
Í Reykjavík með Samfylkingu og Vinstri grænum, jafnvel Pírötum, en í Hafnarfirði og Kópavogi með Sjálfstæðisflokknum.
Þannig getur flokkurinn farið að vega salt milli vinstri og hægri.
Í Kópavogi er sagt að Sjálfstæðismenn vilji mjög gjarnan vinna með Bjartri framtíð, enda komin þreyta í samstarf með Framsóknarflokki sem hefur staðið lengi, þó með smá hléi.
Sagan segir að Sjálfstæðismönnum í Kópavogi lengi hafa þótt Framsóknarmennirnir full heimtufrekir. Það er þá spurning hverjar verða kröfurnar frá BF?
En svo er því líka haldið fram að ástæða þess að Ármann Kr. Ólafsson tortryggir Framsókn sé vegna vináttu Gunnars Birgissonar, fyrrverandi bæjarstjóra, og Birkis Jóns Jónssonar sem leiddi lista Framsóknar. Gunnar mun hafa stutt Framsókn gegn flokksbróður sínum og fjandmanni, Ármanni.