Á Evrópublogginu birtist ágætt yfirlit um úrslit Evrópuþingskosninganna. Þau sýna að þrátt fyrir framrás öfgasinnaðra flokka til hægri eru flokkar sem eru trúir lýðræði, frelsi og mannréttindum enn með yfirburðastöðu á Evrópuþinginu,
Stærsti þinghópurinn er EPP, þar sem er að finna Kristilega demókrata og fleiri hægrimenn. Hann hefur 214 þingsæti. Næst stærsti hópurinn eru sósíaldemókratar með 189 sæti. Sá þriðji stærsti er Alde, þar sem eru fulltrúar frjálslyndra flokka, með 66 sæti, en Græningjar eru fjórðu stærstu með 52 sæti.
Með 46 sæti eru svo ECR þar sem eru hægriflokkar sem efast um Evrópusambandið, breski Íhaldsflokkurinn er þar langstærstur, en aðeins minni er GUE þingmannahópurinn sem er vinstri sinnaður, hann hefur 42 sæti.
EFD, þar sem eru breski UKIP, Norðurbandalagið ítalska og Þjóðarflokkurinn danski, er með 38 sæti.
Talið er að hægrimennirnir í EPP, sósíaldemókratarnir og Alde muni vinna þéttar saman til að stemma stigu við lýðskrumsflokkunum. En auðvitað er hætt við að verði meiri ófriður en áður í Evrópuþinginu.