Ég er dálítið upptekinn þessa dagana.
Við Pétur H. Ármannsson erum að gera þætti um byggingasögu Reykjavíkur á 20. öld – jú, við förum líka aðeins út fyrir borgina þegar það á við.
Fyrsti þátturinn byrjar í Reykjavíkurbrunanum mikla 1915, þegar timburstórhýsi í bænum brunnu til kaldra kola, við höldum svo áfram í gegnum valin ártöl, háborgarhugmyndirnar í kringum 1930, lýðveldisstílinn og stríðsgróðahús 1945, módernismann og einbýlishúsahverfin 1960 og svo Breiðholtið og baráttuna fyrir verndun timburhúsa 1975.
Þetta er feikilega skemmtilegt verkefni – í því felst mikil menningar- og hugmyndasaga og þarna er að finna margar litríkar persónur.
Ég hef mér til halds og trausts Ragnheiði Thorsteinsson upptökustjóra og Jón Víði Hauksson kvikmyndatökumann – betra samstarfsfólk er ekki hægt að hugsa sér.
Þættirnir verða væntanlega sýndir á RÚV næsta vetur.
Hið glæsilega timburhús, Hótel Reykjavík, varð eldi að bráð í Reykjavíkurbrunanum mikla 1915. Svalir hússins sneru út að Austurvelli og þar gat fyrirfólk staðið og fylgst með því sem fór fram á torginu. Við hliðina á hótelinu var nýbúið að reisa mikið verslunarhús úr timbri sem nefndist Syndicatið í almennu tali. Við brunann lauk timburhúsatímanum í Reykjavík.