Um kirsuberjatré sem eru farin að blómgast hér á Íslandi á vorin yrkja þeir kvæði í Japan. Trén eru þar tákn um vorið.
Því koma kirsuberjatré oft fyrir ljóðforminu sem nefnist haiku. Og reyndar hefur kirsuberjablóminn verið tákn um fleira, eins og til dæmis unga hermenn sem var fórnað í heimstyrjöldinni síðari.
Haiku eða hæka er þrjár ljóðlínur, í fyrstu línu eru fimm atkvæði, í annarri línunni sjö og í þriðju og síðustu línunni fimm atkvæði.
Efnið er yfirleitt einfalt, en tengist náttúrunni og árstíðinni þegar hækan er ort. Ekki er verra ef maður nær að segja hvenær, hvar og nokkurn veginn hvað er að gerast.
Formið er semsagt harla strangt ef maður fylgir því í hörgul. Þetta er skyndimynd, snöggrissuð eins og segir hér í grein um Óskar Árna Óskarson sem hefur fengist við hækur.
Í kvöld varð til þessi heldur lélega hæka:
Kirsuberjablóm
sem springa út í kvöldsól
í garði Martins
Tilefnið er kirsuberjatréð sem stendur í blóma hjá húsi vinar míns sem heitir Martin og staðfestir rækilega við mann þetta yndislega vor sem við erum að upplifa í þessum landshluta. Hér er mynd af því tekin á síma í kvöld – í svipuðum gæðum og hækan.
Kannski geta lesendur síðunnar ort betri hækur – ja, eða bara ferskeytlur – því hér er grein eftir Hallgrím Helgason frá því 1997 þar sem hækur fá að finna til tevatnsins – og eru taldar til marks um lognmollu í ljóðlist.