fbpx
Miðvikudagur 29.maí 2024
Eyjan

Lygaáróðurinn um Úkraínu, Evrópa og Evrasía – öfgamenn í Úkraínu verða ekki ofan á nema Rússland geri innrás

Egill Helgason
Föstudaginn 18. apríl 2014 16:17

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Timothy Snyder, prófessor í sagnfræði, við Yale háskóla skrifar magnaða grein um Úkraínumálið sem birtist fyrst í New Republic og svo í New Statesman. Greinin ber yfirskriftina Ukranian extremists will only triumph if Russia invades. Snyder er sérfræðingur í sögu Mið- og Austur-Evrópu, mæltur á fjölda tungumála, höfundur bókar sem nefnist Bloodlands: Europe Between Hitler and Stalin en einnig samdi hann samtalsbókina Thinking the Twentieth Century með sagnfræðingnum Tony Judt skömmu fyrir andlát hans. Það er bók sem eindregið má mæla með, full af þekkingu og visku.

Hér fylgir endursögn á grein Snyders. Millifyrirsagnirnar eru mínar.

url-1

 

Forsagan

Í greininni rekur Snyder eldri sögu Úkraínu allt frá tíma Rús ríkisins sem hafði miðju sína í Kænugarði – og þangað sem norrænir víkingar komu –og til tíma vaknandi þjóðernishyggju á 19. öld. Þá voru uppi svipaðar frelsisbaráttuhugmyndir og í öðrum Evrópuríkjum. Úkraínu var skipt milli rússneska keisaradæmisins og veldis Habsborgaranna. Það sprakk allt í loft upp í fyrri heimstyrjöldinni.

Pólverjar náðu sér í Galisíu í Vestur-Úkraínu, en úkraínskir þjóðernissinnar börðust gegn bæði bolsévíkum og hvítliðum innan rússnesku landamæranna. Mismunandi herir lögðu Kiev tólf sinnum undir sig, en loks var stofnað sovétlýðveldið Úkraína.

 

Hungursneyð af völdum stalínisma

Fyrst var stefna Sovétstjórnarinnar að leyfa úkraínskri mennta- og stjórnmálastétt að verða til. Hugmyndin var sú að upplýst Úkraína myndi af frjálsum og fúsum vilja vera með í Sovétríkjunum. Þetta breyttist þegar Jósef Stalín náði völdum. Bændastéttin í Úkraínu var mjög treg gagnvart samyrkjubúavæðingunni – hún trúði á einkaeign.

Stalín brást við með mikilli hörku. Hann kenndi úkraínskum þjóðernissinnum og erlendum stuðningsmönnum þeirra um og sendi sveitir til að gera korn og búpening upptækan. Þarna var hann í raun að svelta milljónir manna. Meira en þrjár milljónir manna dóu í hungursneyðinni á fyrri huta fjórða áratugsins.

Áróður Stalíns fól í sér að Úkraínumenn væru sjálfir að svelta sig að fyrirskipunum frá Póllandi. Síðar gekk áróðurinn út á að hver sem nefndi hungungursneyðina væri útsendari nasista í Þýskalandi. Þar upphefst hin kunnuglega og mikið notaða viðkvæði að allir sem setja sig upp á Moskvuvaldinu séu fasistar og nasistar – þetta gengur aftur fram á okkar daga.

 

Hörmungarnar í Úkraínu milli 1933 og 1945

Þetta kom þó ekki í veg fyrir að Stalín gerði griðasáttmála við Hitler sem fól í sér að ríkin skiptu á milli sín Póllandi en Sovétríkin tóku líka völdin í Eystrasaltsríkjunum. Þannig var andstöðu við fasisma sífellt flaggað í áróðursskyni af Moskvuvaldinu, en þaðekki endilega raunverulega andstöðu við fasisma. Þetta mynstur er ennþá fyrir hendi.

Úkraína var lykillinn að hugmyndum Hitlers um lífsrými fyrir þýsku þjóðina, lebensraum. Þangað átti að flytja þýskt fólk sem myndi yrkja hina frjósömu jörð. Úkraínumönnum skyldi útrýmt eða þeir hnepptir í þrældóm. Ekkert land í Evrópu leið aðrar eins hörmungar og Úkraína á árunum 1933-1945.

Um þetta hefur ekki verið mikið fjallað. Þjóðverjar hafa hugann aðallega við útrýmingu gyðinga og hernaðinn í Sovétríkjunum (og þá er núorðið talað um Rússland). Minna er talað um að Úkraína hafi verið lykillinn að útþenslustefnu Hitlers – meira að segja virtir stjórnmálamenn eins og Helmut Schmidt tala eins og í Úkraínu eigi ekki að gilda ákvæði alþjóðalaga. Sú hugmynd að Úkraínumenn séu ekki jafngildir í samfélagi þjóðanna er mjög þrálát – henni fylgir gjarnan sú hugsun af því að Úkraínumenn séu sjálfir ábyrgir fyrir glæpum stríðsins. Þá gleymist auðvitað að hinir skelfilegu glæpir sem voru framdir í Úkraínu voru partur af stefnu Þjóðverja og hefðu aldrei orðið nema vegna stríðs sem Þjóðverjar hófu og vegna heimsvaldastefnu þýska ríkisins.

 

Bandalag Hitlers og Stalíns

Griðasáttmálinn milli Hitlers og Stalíns var gerður 1939. Stalín var himinlifandi yfir þessu og batt miklar vonir við sáttmálann. Þegar Hitler loks réðst inn í Sovétríkinn var hann óviðbúinn. Þarna var orðið til bandalag milli ysta vinstrisins í Evrópu og ysta hægrisins. Í huga Stalíns var þetta lykillinn að því að eyðileggja Evrópu. Þjóðverjar myndu einbeita sér að nágrönnum sínum í vestri sem myndi þýða endalok kapítalismans í Evrópu. Þetta er ekki svo fjarri vissum útreikningum Vladimirs Pútíns, eins og síðar kemur í ljós.

Afleiðing sáttmálans var algjör eyðilegging pólska ríkisins, en líka ákveðinn uppgangur þjóðernishyggju meðal Úkraínumanna. Þjóðernishreyfingar þar höfðu verið brotnar á bak aftur með hörku, en nú komu þær upp á yfirborðið, sérstaklega í Póllandi þar sem margir Úkraínumenn höfðu leitað hælis. Þær voru í andstöðu við bæði nasista og kommúnista, en ofaná varð sú hugmynd að eina leiðin til að Úkraína gæti orðið sjálfstætt ríki væri með innrás Þjóðverja.

Þetta samstarf við Þjóðverja mistókst herfilega. Fjöldi Úkraínumanna slóst í lið með þýska innrásarliðinu 1941. Úkraínskir stjórnmálamenn töldu sig eiga eitthvað inni vegna þessa, þeir vildu lýsa yfir sjálfstæði Úkraínu í júní 1941. Hitler hafði engan áhuga á því og flestir leiðtogar þjóðernissinnanna voru drepnir eða fangelsaðir.

 

Stríðslok – hugmyndin um Föðurlandsstríðið mikla

Þegar leið á stríðið fóru þjóðernissinnar í Úkraínu að búa sig undir að Sovétherinn ræki Þjóðverja burt. Í huga þeirra voru Sovétríkin aðalóvinurinn á þeim tíma – einfaldlega vegna þess að þau voru að vinna stríðið. Þessar skæruliðasveitir háðu blóðugt stríð við hersveitir Sovétmanna og hræðileg grimmdarverk voru framin á báða bóga. Sveitir Úkraínumanna drápu líka Pólverja og gyðinga.

Á þessum skelfilega tímabili voru um sex milljónir manna drepnar í Úkraínu, þar á meðal 1,5 miljón gyðinga. Vissulega störfuðu margir Úkraínumenn með Þjóðverjum, en sannleikurinn er samt sá að miklu fleiri íbúar Úkraínu voru drepnir af nasistum en störfuðu með þeim. Það er ekki raunin í flestum öðrum Evrópulöndum sem nasistar hertóku. Fleiri Úkraínumenn féllu í bardögum við þýska herinn en bandarískir, franskir og breskir hermenn samanlagt.

Þessa sér ekki staði í Þýskalandi þar sem fyrst og fremst er litið á Rauða herinn sem rússneskan her.  Með þeim hætti hafa Rússar unnið áróðurssigur. Sé Rauði herinn rússneskur, þá hljóta Úkraínumenn að hafa verið í liði óvinarins. Hugmyndin um Föðurlandsstríðið mikla eins og hún var sett fram af Stalín hvílir á þremur meginstoðum: Stríðið byrjaði 1941 en ekki 1939 sem felur í sér að griðasáttmálinn gleymist, Rússland verður algjör þungamiðja þótt stríðið hafi leitt til meiri hörmunga í Úkraínu  – og í þriðja lagi, þjáningum gyðinga var alveg sleppt.

 

Rússavæðing

Það er þessi áróður eftirstríðsáranna fremur en reynslan af stríðinu sjálfu sem telur í stjórnmálum nútímans. Enginn valdamaður sem nú er uppi man eftir stríðinu. Þeir sem nú stjórna í Rússlandi eru börn Brésnefs-tímans. Þar var Föðurlandstríðið mikla rússneskt, án Úkraínumanna og gyðinga. Það var ekkert pláss fyrir Helförina. Úkraínumönnum var gjarnan kennt um hana og öðrum þjóðum á jaðri Sovétveldisins þar sem voru uppi kröfur um sjálfstæði og þar sem hafði verið andstaða við Sovétríkin í lok stríðisins. Þessi hefð hefur haldið áfram í rússneskum áróðri. Þar ríkir algjört skeytingarleysi um Helförina sjálfa, nema þegar er hægt að nota hana í áróðursskyni.

Á áttunda áratug síðustu aldar fór fram mikil rússavæðing innan Sovétríkjanna. Úkraínsk tunga var tekin af námsefni skóla og sérstaklega í hærri menntastofnunum. Á sama tíma fóru að myndast tengsl milli úkraínskra menntamanna og pólskra sem höfðu sest að í Vestur-Evrópu, ekki síst í París. Þeir pældu í framtíð þjóða sinna eftir hugsanlegt fall kommúnismans. Þar voru Pólverjar í forystu, eins og kom á daginn á níunda áratugnum þegar uppreisnin sem loks felldi kommúnismann hófst í Póllandi.

 

1991 – sjálfstæð Úkraína

Þarna var talað um Úkraína sem sérstakt land, rétt eins og Pólland , og að sjálfstætt Pólland skyldi að viðurkenna landamæri sjálfstæðrar Úkraínu – án þess að breyta landamæralínum. Þetta var umdeilt, því eftir stríðið hafði Pólland misst stór svæði í vesturhluta Úkraínu. En þetta var stórt skref í átt þess að byggja upp Úkraínu sem sjálfstætt ríki. Sjálfstæði Úkraínu var einn hornsteinninn í evrópupólitík stjórnarinnar sem tók við í Póllandi eftir fall kommúnismans. Í fyrsta skipti höfðu sjálfstæðissinnar í Úkraínu aðeins einn óvin – Sovétríkin. Í desember 1991 samþykktu 90 prósent Úkraínumanna sjálfstæði – fyrir því var meirihluti í öllum héruðum Úkraínu.

Rússland og Úkraína fóru hvort í sína áttina. Einkavæðing og skortur á lögum og reglu leiddi til auðræðis í báðum ríkjunum. Í Rússlandi tempraði miðstýrt ríkisvald áhrif ólígarkanna, í Úkraínu var ástandið óræðara, þar var uppi ákveðin tegund af fjölræði. Leiðtogar Úkraínu virkuðu ringlaðir og horfðu bæði til austurs og vesturs og fylgdu ýmsum klíkum ólígarka að málum, allt eftir því hvernig vindar blésu.

 

Janúkovits mistekst að herða tökin 

Forsetinn Viktor Janúkóvits reyndi að binda endi á þetta fjölræði, ekki bara hvað varðaði utanríkismálin heldur líka hvað varðaði ólígarkaklíkurnar. Heimafyrir kom hann upp sýndarlýðræði þar sem hinn valdi andstæðingur var öfgahægriflokkurinn Svoboda. Með þessu bjó hann til kerfi þar sem honum var í lófa lagið að vinna kosningar og þar sem hann gat sagt erlendum eftirlitsmönnum að hann væri þó skárri en þjóðernissinnarnir til hægri.

Í utanríkismálum þrýstist hann nær Rússlandi Pútíns, ekki endilega vegna þess að hann æskti þess sjálfur, heldur vegna þess að stjórnarfar hans torveldaði mjög samskiptin við Evrópusambandið. Janúkóvits virðist hafa stolið svo miklu úr ríkiskassanum að Úkraína var komin á barm gjaldþrots 2013. Það gerði hann aftur móttækilegri fyrir stuðningi frá Rússum.

 

Evrasíska bandalagið

En nú hafði orðið sú viðhorfsbreyting í Moskvu að erfitt var fyrir Úkraínustjórn  að spila þennan jafnvægisleik gagnvart austri og vestri. Moskva var ekki lengur höfuðborg rússnesks ríkis sem hafði nokkuð fyrirsjáanlegra hagsmuna að gæta, heldur voru komnar upp stórar fyrirætlanir um evrasískt bandalag. Þetta bandalag hefur tvö meginmarkmið – markaðs- og fríverslunarbandalag sem myndi ná yfir Rússland og ríki eins og Úkraínu, Belarús og Kazakhstan – þar sem stjórnarfar er ekki ýkja lýðræðislegt – og hins vegar að grafa undan Evrópusambandinu með því að styðja ysta hægrið í Evrópu.

Hugmyndafræðin er félagsleg íhaldssemi – en einn aðaltilgangurinn er einfaldur. Pútínstjórnin er háð sölu á olíu- og gasi sem fer um leiðslur til Evrópu. Sameinuð Evrópa getur komið sér upp orkustefnu, hvort sem er vegna áhyggja af loftslagsbreytingum eða af viðskiptaveldi Rússa. Þessi stefna getur verið andstæð hagsmunum Moskvustjórnarinnar. Sundruð Evrópa er miklu veikari gagnvart því hvernig Rússar beita orkunni í alþjóðaviðskiptum.

Allt árið 2013 var linnulaus herferð í málgögnum Kremlarstjórnarinnar þar sem var hamrað á hningnun Evrópu, aðallega í kynferðissefnum. En úrkynjun Evrópu er ekki hið raunverulega áhyggjuefni, heldur er þetta einungis notað í áróðursskyni sem liður í ákveðinni stefnu.

 

Úkraína setur strik í reikning Moskvuvaldsins

Þróun mála í Úkraínu setti þessi áform í loft upp. Tilraunin til að innlima Úkraínu í hina evrasísku hugmynd mistókust algjörlega. Fyrst þvingaði Moskva Janúkóvits til að hætta við að undirrita samstarfssamning við Evrópusambandið. Almenningur í Úkraínu fór út á göturnar til að mótmæla. Þá bauð rússneska stjórnin fram stór lán og gas á vildarkjörum. Lagabreytingar í janúar 2014 virkuðu eins og olía á eld mótmælanna. Janúkóvits stóð andspænis fjöldahreyfingu. Samkvæmt lögunum voru þær milljónir manna sem fóru út á götur að mótmæla nú glæpamenn.

Moskvustjórnin skipaði Janúkóvits að ráðast með hörku gegn vandanum, annars fengi hann ekki fjárhagsaðstoð. Fjöldamorðin í Kiev í febrúar snerust upp í pólitískan og móralskan sigur fyrir andstöðuöflin. Janúkóvits flúði til Rússlands.

Evrasíubandalagið getur ekki verið annað en klúbbur einræðisherra, en tilraunir til að koma upp einræði í Úkraínu höfðu þveröfug áhrif, endurreisn þingræðis, forsetakosningar og utanríkisstefnu sem hallast í átt til Evrópu. Ekkert af þessu hefði gerst nema vegna þess að fólkið sjálft, milljónir Úkraínumanna, tóku sig til og mótmæltu.

 

Blygðunarlaus áróður Pútínstjórnarinnar 

Þannig var uppreisnin í Úkraínu ekki aðeins herfilegur ósigur fyrir utanríksstefnu Rússa, heldur líka ógn við rússnesku stjórnina heimafyrir. Veikleiki Pútínstjórnarinnar eru að hún ræður illa við þegar borgararnir taka frelsið í sínar hendur og skipuleggja sig með þessum hætti. Styrkur hennar er hvað hún hikar ekki við að reka blygðunarlausan áróður og hversu snjöll hún er í alls kyns undirferli.

Nú varð línan sú að uppreisinin í Úkraínu hefði í raun verið valdataka nasista. Evrópa hefði stutt þessa nasista. Á þessu var hamrað linnulaust. Með þessu er rekinn fleygur í stjórnmálin í Úkraínu og í Evrópusambandið. Þessi útgáfa af atburðunum er fullkomlega fáránleg, en í hugarheimi Pútíns er virkar hún vel. Þá þarf ekki að viðurkenna hrakfarir rússneskrar utanríksstefnu í Úkraínu – sjálfsprottin mótmæli Úkraínubúa verða að samsæri sem tengist erlendum öflum.

Innrás Rússa á Krímskaga var bein ögrun við öryggiskerfið í Evrópu og við Úkraínu sem sjálfstætt ríki. Með þessu skapaðist líka sú hætta að Þjóðverjar og aðrir færu aftur í gamla hugarfarið, sem ber keim af nýlendustefnu, þar sem Úkraínumenn hafa í raun ekki rétt sínu eigin ríki og þar sem lög og regla eru virt að vettugi. Innrásin í Krím fór fram í skjóli evrópskra öfgaafla sem eru höll undir Pútín.

 

Öfgahægrið og öfgavinstrið í Evrópu leggja blessun sína yfir innrásina 

Enginn alþjóðastofnun með sómakennd myndi viðurkenna kosningarnar þar sem 97 prósent íbúa Krímskaga greiddu atkvæði með því að skiljast frá Úkraínu. En skingilegur hópur hægri pópúlista, ný-nasista og fulltrúa frá þýska stjórnmálaflokknum Die Linke skirrðist ekki við að fara til Krím og leggja blessun yfir úrslitin. Þýska sendinefndin til Krím samanstóð af fjórum meðlimum Die Linke og einum félaga úr Neue Rechte. Þessi samsetning segir sína sögu.

Die Linke hrærast í sýndarveruleika sem er búinn til af rússneskum áróðursmönnum. Þar er hlutverk evrópska vinstrisins – eins og þetta er satt upp af Moskvu – að gagnrýna hægriöflin í Úkraínu, en ekki hægriöflin í Evrópu og alls ekki hægriöflin í Rússland.

 

Hægriöfgamennirnir í Kiev og völd þeirra

Það eru til öfgahægrimenn í Úkraínu. Þeir hafa nokkur áhrif. Svoboda, sem Janúkóvits fannst svo þægilegt að hafa í andstöðu, hefur fjóra ráðherra af tuttugu í ríkisstjórninni í Úkraínu. Þetta er rausnarlegt miðað við að flokkurinn hafði aðeins 3 prósenta fylgi í síðustu kosningum. Sumir af þeim sem börðust gegn lögreglunni í uppreisninni voru úr hópi sem kallast Hægri armurinn. Þar eru róttækir þjóðernissinnar meðal félaga. Forsetaframbjóðandi þessa flokks hefur 2 prósent í skoðanakönnunum en meðlimirnir eru um 300. Hægri öfgaflokkar hafa semsagt nokkurn stuðning í Úkraínu – en hann er samt minni en í flestum ríkjum Evrópusambandsins.

Öfgaöfl verða oft ofan á í uppreisnarástandi og það er sjálfsagt að vera á verði. Það var mjög áberandi að friður komst á í Kiev og mestallri Úkraínu strax eftir að uppreisninni lauk. Nýja ríkisstjórnin hefur mætt yfirgangi Rússa með ótrúlegri ró. Eina hugsanlega leiðin til að öfgamenn í Úkraínu komist til valda er ef Rússar ráðast inn í landið. Ef forsetakosningar fara fram í maí eins og áætlað er, þá er öruggt að komi í ljós veikleikar og óvinsældir ysta hægrisins. Þetta er eitt af því sem Moskuvaldið óttast.

Þeir sem hamra sífellt á hlut hægriaflanna í Úkraínu sjá ekki tvennt. Í fyrsta lagi kom uppreisnin frá vinstri. Óvinurinn var þjófræðisseggur með einræðistilhneigingar – aðalmarkmið uppreisnarinnar að byggja upp réttarríki og samfélagslegt réttlæti. Einn upphafsmaðurinn var blaðamaður af afgönskum ættum, þeir fyrstu sem féllu voru frá Armeníu og Belorús. Uppreisnin var studd af Krímtatörum og gyðingum.

 

Rússneskir fjölmiðlar eru frjálsir – í Úkraínu

Uppreisnin á Maidantorgi fór fram á tveimur tungumálum, úkraínsku og rússnesku. Kiev er tvítyngd borg og Úkraína er tvítyngt land. Einn helsti drifkraftur uppreisnarinnar var hin rússneskumælandi millistétt í Kiev. Ríkisstjórnin sem situr nú er speglar mismunandi þjóðabrot og tungumál. Úkraína er fjölþjóðlegur staður þar sem uppruni og tungumál skipta ekki jafn miklu máli og sumir virðast halda. Og raunar er Úkraína nú vettvangur frjálsustu fjölmiðlunar á rússneskri tungu sem um getur. Nú ríkir þar málfrelsi.

Sú hugmynd að Pútín sé að vernda rússneskumælandi fólk í Úkraínu er algjörlega fráleit. Vitlausust er hún þó vegna þessa: Fólk getur sagt það sem það vill á rússnesku í Úkraínu en í sjálfu Rússlandi er það ekki hægt.

 

Öfgahægrið í Rússlandi er mun hættulegra en öfgahægrið í Úkraínu – það er nefnilega við völd

Og svo er það enn eitt. Öfgahægrið í Rússlandi er miklu hættulegra en öfgahægrið í Úkraínu. Þó ekki væri nema vegna eins, í Rússlandi er það við völd. Þar ógnar því engin stjórnarandstaða. Það þarf ekki að taka tillit til alþjóðasamfélagsins. Og nú rekur það utanríkisstefnu sem byggir á kynþáttahyggju. Það skiptir ekki máli hver einstaklingurinn er, hvað hann vill eða hvaða lög gilda. Ef hann talar rússnesku er hann volksgenosse sem þarf að fá rússneska vernd – og það getur þýtt innrás.

Rússneska þingið gaf Pútín grænt ljós á að ráðast inn í Úkraínu og til að umbreyta stjórnmálum og samfélagi þar. Það er afskaplega rótttækt markmið. Það sendi lika skilaboð til Pólverja með hugmyndum um að skipta Úkraínu í tvennt. Á vinsælli sjónvarpsstöð er gyðingum sjálfum kennt um Helförina. Í dagblaðinu Izvestiia er Hitler lýst sem skynugum stjórnmálamanni sem hafi verið undir óbærilegum þrýstingi frá Vesturlöndum. Þeir sem þramma um og lýsa yfir stuðningi við innrásina í Úkraínu eru klæddir einkennisbúningum og ganga í takt. Íhlutun Rússa í Austur-Úkraínu gengur út á að magna upp ofbeldi milli þjóðarbrota. Maðurinn sem reisti rússneska fánann í Donetsk er meðlimur í ný-nasistaflokki.

 

Frjálslyndu lýðræði hafnað

Allt þetta er í samræmi við hugmyndirnar sem eru á baki Evrasíu. Evrópusamstarfið hefur að forsendu að nasimi og stalínismi hafi verið neikvæð fordæmi sem beri að forðast, en Evrasíuáformin ganga út frá þeirri póstmódernísku hugmynd að sagan sé einhvers konar skjóða þar sem maður getur tínt upp hugmyndir eftir því sem hentar. Frjálslynt lýðræði er skilyrði fyrir Evrópusamrunanum, evrasíska hugmyndafræðin hafnar því.

Alexander Dugin er einn helsti hugmyndafræðingur Evrasíu og hefur aldrei fengið meiri athygli en nú. Hann boðar nauðsyn þess að taka yfir Úkraínu, hnignun Evrópusambandsins og evrasískt bandalag sem myndi spanna frá Atlantshafi til Kyrrahafs. Þetta endurómar í rússneskri utanríkisstefnu, þótt málflutningurinn sé ekki alveg jafn öfgakenndur. Pútín lýsir Rússlandi sem umkringdu landi sem hafi sérstaka siðmenningu og sérstakt hlutverk. Þetta þurfi að verja með ráðum og dáð.

 

Stóra lygin 

Það sem tengir stjórnvöld í Rússlandi mest við öfgahægrið í Evrópum er ákveðinn óheiðarleiki, lygi sem er svo stór og alltumlykjandi að hún hefur mikinn eyðileggingarmátt. Um leið og stjórnarherrar í Rússlandi ausa óhróðri yfir Evrópu og lýsa henni sem leikvelli siðspillingar og samkynhneigðar, er rússneska elítan háð Evrópusambandinu á öllum sviðum.

Án stöðugleikans í Evrópu, stjórnfestunnar, laga og menningar, myndu Rússar ekki hafa neinn stað til að þvo peningana sína, setja upp fyrirtæki, senda börn sín í skóla og fara í frí. Evrópa er bæði grunnur rússneska kerfisins og öryggisventill þess.

Á sama hátt njóta dæmigerðir kjósendur Le Pen eða Strache ýmissa hluta sem hafa orðið til vegna Evrópusamrunans, friðar, felsis og farsældar. Skýrt dæmi er möguleikinn sem rennur upp 25. maí þar sem verður hægt að nota frjálsar kosningar til að kjósa á Evrópuþingið fólk sem segist vera á móti tilvist Evrópuþingsins.

 

Meira að segja Farage dreifir áróðri Pútins

Líkt og hjá Pútín felur málflutningur Le Pen og Strache í sér augljósa þversögn. Allir kostir Evrópu, friður, frelsi og farsæld, muni halda áfram að vera til þótt Evrópubúar hverfi aftur til þjóðríkja sinna. En þetta er draumsýn sem er álíka heimskuleg og hún er daufleg. Það er ekkert þjóðríki til að hverfa til. Eini möguleikinn í hnattvæddum heimi eru gagnkvæm samskipti. Fyrir lönd eins og Frakkland, Austurríki, Grikkland, Búlgaríu og Ungverjaland er höfnun á Evrópusambandinu eins og opinn faðmur í garð Evrasíu.

Þetta er hinn einfaldi veruleiki: Sameinuð Evrópa getur og mun líklega standa gegn hinu rússneska olíu- og gasveldi, þyrping þjóðríkja sem deila innbyrðis getur það ekki. Leiðtogar hægriöfgaflokkanna í Evrópu eru hættir að draga dul á að flótti þeirra frá Brussel mun leiða þá í fang Pútíns. Flokksfélagar fara til Krímskaga og lofsyngja kosningafarsann þar eins og þetta sé fyrirmynd fyrir Evrópu. Tryggð þeirra er gagnvart Pútín fremur en meintum hægriöfgamönnum í stjórn Úkraínu. Meira að segja leiðtogi UKIP í Bretlandi dreifir áróðri Pútíns um Úkraínu í sjónvarpi fyrir framan milljónir sjónvarpsáhorfenda.

 

Rússar vilja eyðileggja kosningarnar í Úkraínu

Forsetakosningar verða haldnar í Úkraínu 25. maí. Það er sama dag og kosningarnar til Evrópuþingsins. Íhlutun Rússa í austurhluta Úkraínu hefur að markmiði að koma í veg fyrir að þessar kosningar verði haldnar. Á næstu vikum munum við sjá sambræðing Kremlarvaldsins og öfgahægrisins í Evrópu þegar Rússar reyna að eyðileggja kosnngarnar í Úkraínu og evrópskir þjóðernissinnar sækja fram í kosningum til Evrópuþingsins.

Atkvæði greitt Strache eða Le Pen eða jafnvel Farage jafngildir nú atkvæði greitt Pútín. Ósigur Evrópu er sigur Evrasíu. Það er óhugsandi að snúa aftur til þjóðríkisins, saamruni verður með einum eða öðrum hætti. Það eina sem hægt er stjórna er hvaða form hann tekur. Stjórnmálamenn og menntamenn sögðu löngum að enginn valkostur væri við Evrópusamrunann – nú er hann kominn, það er Evrasía.

Úkraína á enga  framtíð án Evrópu, en Evrópa á heldur enga framtíð án Úkraínu. Vendingar í Evrópusögunni hafa áður hverfst um Úkraínu. Sú er líka raunin í dag. Hvernig það gerist veltur á Evrópubúum sjálfum, að minnsta kosti næstu sex vikurnar.

images

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt