Guðni Ágústsson býr í blokk við Lindargötu. Þegar hann sat á þingi átti hann heima á Melunum og var tíður gestur í Vesturbæjarlauginni.
Þannig að það er ekki eins og Guðni hafi ekki komið til Reykjavíkur.
Hins vegar er hann í hugum flestra landsbyggðarmaður. Talsmaður bænda, mjólkur og kúa.
Guðni er skemmtilegur, orðheppinn og sjarmerandi. Það vantar ekki.
En það er spurning hvort hann nái að heilla kjósendur í Reykjavík eða verði sannfærandi þegar hann fer að tala um borgarmálefnin – á tíma þegar hinn stjórnarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, teflir líka fram manni af landsbyggðinni. Halldór Halldórson var beinlíns kallaður í bæinn þessara erinda – það er þó nóg að fara niður í Skuggahverfi til að ná í Guðna.