Það er sjálfsagt alveg rétt hjá Gunnari Helga Kristinssyni að kosningabaráttan í Reykjavík sé galopin.
Gunnar Helgi segir að varla sé hægt að álykta að Samfylkingin sé endilega stærsti flokkurinn í borginni þótt hún hafi nokkuð forskot í síðustu könnun. Þar er hún með 27,6 prósent.
En Sjálfstæðisflokkur er með 25,5 prósent og Björt framtíð með 24,3 prósent.
Allmjög styrkir það þó stöðu Samfylkingarinnar að langflestir aðspurðir í nýrri skoðanakönnun segjast vilja Dag B. Eggertsson sem borgarstjóra. Hann er semsagt búinn að byggja upp mikið persónufylgi – sem leiðtoga Samfylkingarinnar á landsvísu skortir alveg.
Ákveðnar línur sem eru skýrar.
Núverandi meirihluti Samfylkingar og BF á mjög góða möguleika á sitja áfram. Ef hann fellur getur hann hæglega boðið VG eða þá Pírötum í samstarfið. Stjórnarskipti í borginni eru mjög ólíkleg.
Sjálfstæðisflokkurinn er 8 prósentustigum lægri en hann var í síðustu borgarstjórnarkosningum. Þá var það minnsta fylgi sem flokkurinn hefur haft í borginni.
Öll sund virðast vera lokuð fyrir Vinstri græn, flokkurinn er einungis með 6,5 prósent.
Píratar eru talsvert hærri, með 10,5 prósent og gætu farið að setja stefnuna á tvo borgarfulltrúa.
Það breytir afar litlu um fylgi Framsóknar þótt flokkurinn hafi engan frambjóðanda í fyrsta sæti.
Samanlagt eru stjórnarflokkarnir með 28,5 prósenta fylgi í borginni.
Ekki virðist vera brennandi áhugi á kosningunum. Kosningar voru dálítið öðruvísi þegar Sjálfstæðisflokkurinn og vinstri flokkarnir háðu grimmilega baráttu um borgina. Nú virðist það vera liðin tíð. Það verður forvitnilegt í því sambandi að sjá kjörsóknina. Í Reykjavík var hún 77 prósent í kosningunum 2006, 83,9 prósent 2002 en aðeins 73,4 prósent 2010.
Er hægt að spá því að kjörsóknin verði ennþá minni í ár?