Þótt efnahag Íslands hafi hrakað mikið, held ég að sé víst að við viljum bera okkur saman við þau lönd í heiminum sem standa best.
Bjarni Benediktsson gerði atvinnuleysi á Íslandi að umræðu á fundi hjá Sjálfstæðisflokknum um helgina. Þar sagði hann að lítið atvinnuleysi væri krónunni að þakka.
Að sumu leyti er það rétt. Krónan hrapaði í hruninu og þar með launin í samfélaginu. Vinnuaflið varð ódýrara og það var hægt að halda fleirum í vinnu. Nú bíður langt og strangt verkefni að reyna að hækka launin aftur – svo þau verði sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndunum.
Ferðamannastraumur hefur aukist geysilega til Íslands. Ferðamennska er mannaflsfrek, hún skapar mikið af störfum en megnið af þeim eru láglaunastörf. Reyndar er Ísland ekki eitt um að upplifa ferðamennskubólu – í Grikklandi var metár í ferðamennsku í fyrra og búist við öðrum metári í ár, þrátt fyrir efnahagskreppu.
Einhvern veginn er það samt svo að sumum löndum tekst að halda uppi góðu atvinnustigi þrátt fyrir að nota ekki íslensku krónuna.
Hér má sjá á vefnum countryeconomy.com að atvinnuleysi í Austurríki er 4,8 prósent, í Þýskalandi 5,1 prósent, í Noregi 3,6 prósent, þetta er frá því í vetur og þarna er Ísland skráð með 5,5 prósenta atvinnuleysi. Nokkur önnur velmegunarríki eru á svipuðu róli og Ísland.