Það má segja að skuldafrumvarp ríkisstjórnarinnar hafi breyst í nokkurs konar and-aprílgabb.
Fyrir nokkru var boðað að fyrsta umræða um frumvarpið hæfist á Alþingi í dag. Þetta er, eins og alþjóð veit, stærsta mál ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili.
Svo rekur einhver augun í að fyrsti dagur þingmeðferðar er sjálfur gabbdagurinn, 1. apríl. Það verður uppi fótur og fit og úr forsætisráðuneytinu berast þau skilaboð að umræðunni skuli frestað, svo ekki virðist eins og það sé allt í plati.
En það var fjármálaráðherra sem á að mæla fyrir frumvarpinu – og í ráðuneyti hans sáu menn ekkert athugavert við að þótt dagsetningin væri 1. apríl. Kannski hafði enginn tekið eftir því heldur?
Úr þessum vandræðagangi er semsagt orðið and-aprílgabb. Þetta er ekki í plati.