Það er alveg rétt að mikill tvískinnungur ríkir gagnvart fjárhættuspili á Íslandi.
Það eru rekin spilavíti sem heita Gullnáman og þar fara í gegn býsna stórar fjárhæðir. En þetta er í þágu Háskólans – og það má. Heldur eru staðirnir þar sem þessi starfsemi er stunduð ótútlegir.
Fjárhættuspil er stundað í spilaklúbbum út um borg og bý – og svo eru fjárhættuspil og veðmál á internetinu. Fyrir það er væntanlega ekki hægt að loka.
En eru þetta rök fyrir því að opna alveg fyrir fjárhættuspili, leyfa starfsemi spilavíta?
Það vill Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins meina, og leggur fram frumvarp á Alþingi um lögleiðingu fjárhættuspila.
Það er reyndar spurning hvernig þetta yrði. Erum við að tala um glæsileg spilavíti – segjum til dæmis að Perlunni yrði breytt í casino? Eða erum við að tala um spilavíti eins og eru víða í Bandaríkjunum, til dæmis á verndarsvæðum indíána?
Það er ekki allt jafn glæsilegt í kringum svona spilastarfsemi – maður getur ekki alltaf búist við því að James Bond gangi inn og panti sér martinikokkteil. Þau eru ekki öll í einhverjum háklassa – en það er Gullnáman svosem ekki heldur.
Bond fer í spilavíti í næstum hverri einustu mynd.