Menn velta fyrir sér hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé að klofna í íhaldsaman, þjóðlegan arm og frjálslyndan og alþjóðasinnaðan arm.
Sjálfstæðisflokkurinn er reyndar ótrúlegt fyrirbæri. Flokkur sem nær yfir allan hægri væng stjórnmálanna, alls konar hagsmuni og hugmyndir. Eitt sinn var sagt að málamiðlanirnar í íslensku samfélagi væru gerðar á landsfundum Sjálfstæðisflokksins.
Það hefur áður verið klofningur úr flokknum, en hann hefur yfirleitt tengst persónum. Albert Guðmundsson fór og stofnaði Borgaraflokkinn. Sverrir Hermannsson stofnaði Frjálslynda flokkinn. Það var helst að málefni réðu því þegar Ólafur F. Magnússon fór úr flokknum – þá voru umhverfissjónarmið svo lágt skrifuð innan hans að Ólafur var hæddur og spottaður á landsfundi.
En eins og sagt er, límið í Sjálfstæðisflokknum er sterkt. Menn geta verið sáróánægðir og óhamingjusamir innan hans en þeir fara samt ekki neitt.
Er runninn upp tími þegar þetta breytist? Það gæti verið.
Í fyrsta lagi er staða flokksins ekki eins sterk og hún var áður. Fylgið er langt innan við þrjátíu prósent, það er nýr veruleiki fyrir flokkinn. Hann stendur afar veikt í höfuðborginni Reykjavík, sem eitt sinn var djásn hans og höfuðvígi.
Þetta bendir til þess að kunni að vera líf utan flokksins fyrir hægrimenn.
Í öðru lagi er flokkurinn í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum þar sem hann þarf að kyngja ýmsu sem honum er í raun á móti skapi. Stór hluti Sjálfstæðismanna hefur óbeit á skuldaleiðréttingum Framsóknar. Þeim finnst þær vera alltof hátt gjald fyrir ríkisstjórnarþátttöku, þar sem Framsókn hefur forsætisráðherrann, þrátt fyrir að að vera minni flokkurinn.
Í þriðja lagi er skortur á umburðarlyndi innan flokksins. Það var sagt hér áður fyrr að í Sjálfstæðisflokknum væru margar vistarverur. En nú er eins og sé búið að loka mörgum af herbergjunum. Þetta hverfist mikið í kringum Morgunblaðið sem hefur breyst í að vera hreint málgagn ákveðins arms flokksins.
Á árum áður, á tíma Matthíasar og Styrmis, hafði Mogginn, uppi ýmsa sjálfstæðistilburði. Hann var á móti kvótakerfinu. Í pólitískum skrifum blaðsins voru ritstjórarnir að hugsa upphátt – þar var mikið fjallað um hugmyndir. Nú snúast öll pólitísku skrifin um að ónotast út í þá sem ekki ganga á réttri línu og berja á þeim. Það örlar ekki á hugmyndum eða málefnalegri umræðu.
Hagsmunagæslan fyrir atvinnulífið hefur sjaldan virkað þrengri. Það er eins og ekkert komist að nema frumframleiðslgreinarnar. Gunnar Smári Egilsson orðar það svo í Facebookfærslu:
Hagsmunir Íslands = Tíu stærstu í LÍÚ
Hjól atvinnulífsins = Tíu stærstu í LÍÚ
Undirstöðuatvinnuvegirnir = Tíu stærstu í LÍÚ
Sjónarmið landsbyggðarinnar= Tíu stærstu í LÍÚ
Þannig gæti verið jarðvegur fyrir nýjan hægri flokk. Það þarf ekki að leita langt eftir fyrirmyndum hvað varðar stefnuna. Alþjóðasinnaðir og frjálslyndir hægriflokkar eru til á Norðurlöndunum, eins og til dæmis Moderaterna í Svíþjóð, sem er flokkur Reinfeldts forsætisráðherra, og Venstre sem náði að verða stærsti hægriflokkur Danmerkur á tíma Anders Fogh Rasmussen.
Samt er maður ekkert sérlega trúaður á menn sem hafa lifað alla sína tíð innan Sjálfstæðisflokksins og félagstengslanna sem þar er að finna þori að taka stökkið.