Framhaldsskólakennarar hafa brátt verið í verkfalli í tvær vikur. Háskólakennarar hafa boðað verkföll sem hefjast 25. apríl. Verkfall er í uppsiglingu hjá Isavia, en þar eiga mun færri einstaklingar í hlut.
Á sama tíma boðar ríkisstórnin skuldaleiðréttingu. Stórum fjárhæðum verður ráðstafað til að greiða niður skuldir einstaklinga.
En til þess að slík aðgerð hafi einhverja þýðingu verður að halda niðri verðbólgunni. Annars fer vél verðtryggingarinnar í gang og eyðir áhrifum skuldalækkunarinnar á skömmum tíma.
Því er haldið fram að launahækkanir verði eins og olía á bál verðbólgunnar. Sökum þess er lítilla launahækkana að vænta þótt efnt sé til verkfalla. Þau munu varla skila miklu.
Ríkisstjórnin og atvinnurekendur munu standa saman gegn því að kaupið hækki. Þótt verkalýðsforystan sé kannski til í slíkt þá er lítil stemming fyrir „þjóðarsátt“ meðal almennra launþega. Hún var gerð afturreka með síðustu tilraun til slíkra samninga.
En Ísland mun þróast lengra í þá átt að vera láglaunaland – hvað sem síðar verður.