Boðað er að frumvörp um skuldaniðurfellingar verði kynnt í ríkisstjórninni í dag. Það er stórviðburður.
Vænta má að ríkisstjórnin leggi allt kapp á að koma málinu í gegnum þingið á næstu vikum – varla mun stjórnarandstaðan streitast gegn því.
En á sama tíma virðist þingsályktunin um að slíta aðildarviðræðunum við ESB vera að sofna í nefnd. Utanríkismálanefnd hefur auglýst eftir umsögnum – ef fer sem horfir verður málið ekki aftur á dagskrá fyrr en næsta haust.
Það er mikið undir hjá Framsóknarflokknum vegna skuldaniðurfellingarinnar. Fylgi flokksins fer mjög lækkandi og traustið á formanninum og forsætisráðherranum er komið niður fyrir fjórðung. Það er erfið staða í ríkisstjórn sem er ekki ársgömul. Innan tveggja mánaða eru sveitarstjórnarkosningar, horfur Framsóknar í kosningunum virðast ansi dökkar og fygistap Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er fordæmalaust.
Síðustu vikur hafa verið mjög erfiðar fyrir ríkisstjórnina. Það er spurning hvort skuldamálin gefi henni – og Framsóknarflokknum – aftur byr í vængi.