Það verður að segjast eins og er að framganga Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra í Úkraínumálinu er til fyrirmyndar.
Gunnar Bragi drífur sig til Úkraínu, talar við heimamenn, sýnir þeim stuðning í baráttunni fyrir lýðræði og gegn yfirgangi og spillingu.
Við getum ekki horft á þetta gerast eins og ekkert sé. Það er nú líka komið þannig að það er árið 2014 og við viljum ekki að menn geti farið og breytt landamærum Evrópu svona eins og ekkert sé. Eftir því sem fleiri lýsa því yfir og sýna það í verki að þeir styðja Úkraínumenn, þeir eru á móti innrásinni frá Rússlandi og að við styðjum líka umbætur. Ég held að hver einasta rödd í þessu skipti máli.
Og hann brýnir líka fyrir þeim að þeir verði að standa sig sjálfir í þessari baráttu. Það eru kosningar framundan í Úkraínu og mikil uppbygging sem þarf að ráðast í.
Það var afar áhrifamikil upplifun að koma þar sem svo margir létu lífið og að hitta mótmælendur, sem segjast munu hvergi fara, fyrr en þeir telja tryggt að breytingar verði til frambúðar. Það er ljóst að Úkraínumanna bíður risavaxið verkefni við að tryggja stöðugleika og takast á við gríðarlegan efnahagsvanda. Ég fékk ágæta mynd af stöðu mála og hvatti bæði stjórn og stjórnarandstöðu til að vinna að efnahagsumbótum, takast á við spillingu, tryggja mannréttindi, málfrelsi og réttindi minnihlutahópa.
Maður heyrir fólk hér á landi tuða yfir því að utanríkisráðherrann sé þarna að „styðja lýðræði erlendis og ekki hér heima“. Í hinu stóra samhengi er það heldur léttvægt.
Andrii Deshchytsia, starfandi utanríkisráðherra Úkraínu, og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í Kænugarði í gærkvöldi. Mynd: Utanríkisráðuneytið.