Það er rétt hjá Styrmi Gunnarssyni sem skrifar að Rússar séu á ný orðnir ógn við nágranna sína.
Þetta er reyndar ekki alveg nýtt, en nú er yfirgangurinn að færast á nýtt stig – í ófáum ríkjum í kringum Rússland eru stórir hópar Rússa sem hugsanlega vilja sameinast gamla landinu eða sem stjórnvöld í Moskvu geta notað í þeim tilgangi að magna upp átök.
Þjóðernisbullugangurinn er kominn á hættulegt stig.
Ólafur Ragnar Grímsson segir að ekki megi blanda gagnrýni á framferði Rússa í Úkraínu við samstarf á Norðurslóðum. En staðreyndin er nú samt að þjóðrembingurinn hefur náð þangað norðureftir.
Ólafur Ragnar situr í heiðursstjórn klúbbs sem nefnist Arctic Circle. Þessi klúbbur á næst að halda fund í Reykjavík í lok október á þessu ári.
Arctic Circle er sem félagsskapur reyndar mjög hallur undir olíuvinnslu. Meðal þeirra sem sitja í stjórninni ásamt Ólafi er Lisa Murkowski, bandarískur öldungadeildarþingmaður frá Alaska, sem gætir hagsmuna olíuiðnaðarins af miklu kappi og hefur sett sig gegn lögum sem eiga að takmarka útblástur gróðurhúsalofttegunda.
Sá sem vekur mesta athygli í stjórninni er þó vinur og bandamaður Pútíns, Artur Chilingarov, hetja frá Sovéttímanum. Það var Chilingarov sem stýrði leiðangri kafbáts sem kom fyrir rússneskum fána á hafsbotninum undir Norðurpólnum árið 2007. Við það tækifæri fullyrti hann einfaldlega:
Norðurskautið er rússneskt.
Fyrir þetta fékk Chillingarov æðsta heiðursmerki sem veitt er í Rússlandi, en á árum áður fékk hann líka Lenínorðuna og fleiri slík heiðursmerki.
Bandaríkjamenn og Kanadamenn svöruðu því til þetta væri ekkert að marka þetta. Fáninn var úr títaníumi, en Bandaríkjastjórn sagði að það skipti ekki máli hvort hann væri úr málmi, gúmmíi eða hvort þetta væri einfaldlega rúmlak.
En Chilingarov svaraði við mikinn fögnuð:
Mér er skítsama hvað þessir stjórnmálamenn segja um þetta. Ef einhverjum líkar þetta ekki, fari hann þá bara sjálfur þarna niður og leiki þetta eftir. Rússland verður að vinna. Rússland hefur það sem þarf til að vinna. Norðurskautið hefur alltaf verið rússneskt.
Artur Chilingarov, hetja í Sovétríkjunum og Rússlandi, þjóðernissinni og meðlimur Arctic Circle.