Þessi setning í umtalaðri grein eftir Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, er toppurinn á einhverju – ég veit samt ekki alveg hverju.
Eins og jafnan í hagfræðilegri greiningu skulum við gera ráð fyrir markaðshagkerfi. Í slíkum hagkerfum ráðstafa neytendur tekjum sínum með hliðsjón af markaðsverði.
Nú fær maður bráðakrabbamein, hjartaslag, það er ekið á mann, maður fær skæða inflúensu – eða barnið manns veikist alvarlega.
Þá skal markaðurinn ráða um þá læknishjálp sem manni stendur til boða, samkvæmt Ragnari.
Annars hefur spunnist skemmtileg umræða um Breaking Bad, bestu þætti í sögu sjónvarpsins. Ekki hefði verið hægt að gera þessa þætti í Evrópu. Þeir byggjast nefnilega á því að venjulegur launamaður fær krabbamein og hefur ekki efni á meðferðinni. Hann leggst út í glæpi til að afla fjár og til að tryggja fjárhag fjölskyldunnar.
Í Evrópu hefði þáttunum lokið þegar Walter White gekk inn á sjúkrahúsið, fékk greiningu og var settur í meðferð við krabbameininu. Það hefði verið heldur snubbótt.
Breaking Bad hefði ekki getað gerst í Evrópu. Þar hefði Walter White einfaldlega fengið sína læknisaðstoð.