Í frétt sem birtist á Bloomberg fréttaveitunni í morgun segir að íslenskir útgerðarmenn hafi áhyggjur af því að gengi krónunnar sé orðið alltof hátt. Segir að útgerðarmenn telji að stjórnvöld og Seðlabankinn haldi uppi alltof háu krónugengi sem sé skaðlegt fyrir sjávarútveginn.
Við höfum reyndar líka lesið fréttir um það í morgun að íslenska krónan sé alltof hátt skráð samkvæmt hamborgaragengi.
Þetta ber semsagt allt að sama brunni – það er krafist gengisfellingar. Íslensk stjórnmál voru lengi í þeim farvegi. Það var siglt milli gengisfellinga. Fólk notaði tækifærið þegar gengið var hátt skráð til að kaupa eitthvað, hamstra, svo kom gengisfellingin – 5 prósent, 10 prósent, 20 prósent – og vöruverð snarhækkaði, menn héldu að sér höndum í neyslunni en útgerðin var ánægð, þó aldrei nema í smátíma.
Forsvarmaður útgerðarinnar á þessum árum fékk viðurnefnið „grátkona þjóðarinnar“ vegna þess að hann var alltaf að væla um gengisfellingar í fjölmiðlum.
Þetta er svolítið eins og að fara snöggt aftur í tímavél. Svona leit þetta til dæmis út á síðum Morgunblaðsins 1950. Blaðið fann ég liggjandi á veitingahúsi um daginn og smellti af mynd.