Ekki var þetta sérlega viðburðarík helgi.
Már reyndi að bera í bætifláka fyrir sig og Láru og tókst ekki vel upp, nokkur hópur mætti á Austurvöll til að mótmæla vegna ESB. Nú hafa meira en 20 prósent kosningabærra manna skrifað undir hjá thjod.is.
Vigdís Hauksdóttir bað starfsmenn Alþingis afsökunar, reyndar baðst hún ekki afsökunar á ummælum sínum um þá, nei það gerði hún ekki, heldur á óþægindum sem umræðan hafi leitt af sér.
Bardagamaðurinn Gunnar Nelson var aðalumræðuefni hluta þjóðarinnar. Aðrir voru með æluna í hálsinum yfir því hvað þessi „íþrótt“ sem hann stundar er ógeðsleg. Maður hugsar aftur til gömlu góðu daganna þegar box var bannað á Íslandi.
Árni Snævarr fór í Sunnudagsmorgun hjá Gísla Marteini og var hissa yfir því hvað voru miklir kærleikar milli Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðarráðherra og Heiðu Kristínar Helgadóttur úr Bjartri framtíð. Árni:
Ragnheiður Elín átti ekki orð yfir hvað Heiðar Kristín væri prúð, þæg og góð stúlka.
En einstaklega orðheppinn maður sem skrifað ummæli um þetta hjá Árna sagði:
Man eftir fallegri franskri barnamynd um kanínuna Henriette sem var besti leikfélagi barnanna. Svo komu jólin og börnin átu Henriette.