Nokkuð er fjallað um grein um eyjar sem birtist í National Geographic. Lykilorðin eiga að vera „óspilltar, ókannaðar, ótrúlegar“. Þar eru nokkrar eyjar í norðrinu nefndar sem meira spennandi áfangastaður en Ísland.
Og svo er tekið fram að einn gallinn við Ísland séu virkjanir og álver.
Ég ætla að taka fram að mig langar mikið til Lófóten, Hjaltlands og Skye – að ónefndum Karíbahafseyjum sem þarna eru nefndar. Ég er mikill eyjamaður og þær þurfa ekki að vera stórar. Krít er prýðileg, en Flatey er það líka.
Ein helsta ástæða þess að Ísland er orðið svo mikið ferðamannaland er að hingað er auðvelt að komast og nokkuð ódýrt, bæði frá Evrópu og Bandaríkjunum. Þegar komið er til Íslands er einfalt að komast út í óspillta náttúru – varla nema stuttur bíltúr. Það eru ekki svo mörg lönd sem geta boðið upp á þetta.
Eyjarnar sem þarna eru nefndar eru flestar miklu minni en Ísland og þangað er mun erfiðara að komast.
Það er talsvert mál að komast til Færeyja, Lófóten, Hjaltlands og Skye.
Hvað varðar álverin, þá hefur ekki verið reist álver á Íslandi í næstum tíu á, eða frá því áður en ferðamannasprengjan mikla varð.
En líklega rekast menn ekki á mörg álver á Skye sem er um 1 prósent af flatarmáli Íslands. Lófóten er hluti af Noregi sem er fullur af álverum og olíuvinnslu. Og Hjaltland er partur af Skotlandi sem hefur verið mikið iðnríki frá því í iðnbyltingunni.
Annars er mátulega mikið að marka svona kannanir. Þarna er efst á blaði af grískum eyjum Hydra, sem að sönnu er fallegur staður með gamalli og reisulegri byggð, en geldur þess mjög að vera nánast eins og úthverfi Aþenu með stöðugum straumi dagsferðamanna.
Þeir sem setja svona saman eru greinilega ekki mjög staðkunnugir. Ég gæti nefnt nokkuð margar grískar eyjar sem eru flottari en Hydra.
Hozoviotissa-klaustrið á hinni hrikalega fallegu eyju Amorgos. Þar er ábóti sem hafði afar gaman af því að gefa ljóshærðum íslenskum dreng sælgæti. Þeir sem vilja kynna sér grískar eyjar ættu að fara til Naxos, vera þar vikutíma, en sigla svo til Amorgos og dvelja þar í einstakri ró og fegurð í nokkra daga.