Ær og kýr Morgunblaðsins á velmektarárum þess var að Ísland ætti heima í hópi vestrænna lýðræðisríkja og ætti að taka þátt í starfi þeirra. Að Ísland ætti að taka sinn skerf af ábyrgðinni við að tryggja öryggi í heiminum.
Þess vegna hafnaði blaðið, og sá hluti Sjálfstæðisflokksins sem það fylgdi að málum, algjörlega hugmyndum um gjaldtöku af bandaríska herliðinu á Íslandi. Hornsteinn utanríkisstefnunnar var svo samstarf við vestræn lýðræðisríki í Nató.
Nú virðist hafa orðið algjör umpólun í huga annars ritstjóra blaðsins.
Styrmir Gunnarsson skrifar grein á vef Evrópuvaktarinnar þar sem hann segir að deilur í Evrópu komi Íslendingum ekki við. Þetta er allt annað viðhorf en var uppi á árunum þegar Mogginn birti erlendar fréttir á forsíðu blaðsins, taldi sig vera heimsblað, fylgdist grannt með baráttu andófsmanna í Austur-Evrópu, og Ísland átti að vera gildur aðili í samfélagi lýðræðisþjóðanna.
Og reyndar verður ekki betur séð en núorðið sé þetta líka afstaða Morgunblaðsins – þar situr ritstjóri sem hefur óbeit á Evrópu og er fullur beiskju í garð Bandaríkjanna.