Forsætisráðherra talar um ómögugleika (afsakið þetta orð) að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB.
Vegna þess að hún verði ekki bindandi. Fyrst þurfi að breyta stjórnarskránni.
Í tillögum stjórnlagaráðs voru ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur sem yrðu bindandi.
Í núverandi stjórnarskrá eru engar þjóðaratkvæðagreiðslur bindandi nema þegar forseti neitar að skrifa undir lög, þegar breyta á kirkjuskipan eða setja af forseta. Annars er ekki gert ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum.
Mikil tregða hefur sprottið upp gagnvart því að breyta stjórnarskrá. Íhaldsamasti maður á Íslandi, Sigurður Líndal, er formaður nýrrar stjórnarskrárnefndar. Það þýðir eiginlega stærra hlé á því máli en sambærilegt hlé á ESB-viðræðunum.
Stjórnarskránni er ekki hægt að breyta nema með því að Alþingi samþykki breytingarnar, síðan þarf að kjósa nýtt þing og það þarf líka að samþykkja breytingarnar.
Það er semsagt ekki hægt að halda bindandi atkvæðagreiðslu um málið á þessu kjörtímabili. Atkvæðagreiðslan yrði alltaf ráðgefandi.
Þetta er þó hægt að leysa með einföldum hætti, nefnilega því að leita til gamalla dyggða sem bera nöfn eins og heilindi og orðheldni. Stjórnmálaleiðtogar geta einfaldlega lýst því yfir að farið verði eftir niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu hverjar sem þær verða.
Ath. Það er rétt sem Hans Haraldsson bendir á hér að neðan að samþykkt var bráðabirgðaatkvæði til að hægt yrði að auðvelda stjórnarskrárbreytingar fram til 2017. Þetta var sett inn þegar síðasta ríkisstjórn var orðin ofsahrædd vegna vanefnda í stjórnarskrármálinu og átti að tryggja áframhald þess. Það er hins vegar háð því að fram komi tillögur um breytingarnar, að einhver áhugi sé á slíku, þær fari í almenna umræðu, verði lagðar fyrir þingið og síðan skal greiða þjóðaratkvæði um þær í fyrsta lagi 6 mánuðum eftir samþykkt Alþingis. Menn geta reiknað út hver tíminn á þessu ferli er miðað við núverandi hraða.