fbpx
Mánudagur 07.júlí 2025
Eyjan

Hvað amar að lýðræðinu?

Egill Helgason
Föstudaginn 28. febrúar 2014 17:31

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

The Economist birtir stórmerka ritgerð um lýðræðið og vanda þess undir yfirskriftinni Hvað amar að lýðræðinu? Hér er farið á hundavaði yfir nokkur atriði sem koma fram í greininni.

Lýðræði var sigursælt á síðari helmingi 20. aldar, en ratar nú víða í ógöngur. Eitt sinn var það lýðræði sem tryggði mestar efnahagsframfarir, en önnur samfélagsgerð í Kína hefur fætt af sér feikilega mikinn hagvöxt.

Lýðræði á í vandræðum í Bandaríkjunum vegna þess hversu peningaöflin eru frek, vald sérhagsmunahópa og lobbíista mikið, og eftir misheppnaðan stríðsrekstur í Írak virkar stjórnarfarið þar varla eins og sérstök fyrirmynd.  í Evrópu er lýðræðishallinn innan Evrópusambandisins áberandi og öfgahreyfingar eru í vexti. Í Rússlandi var stutt lýðræðisskeið, en nú ríkir þar sýndarlýðræði þar sem Pútín er ýmist forseti eða forsætisráðherra.

Alþjóðavæðingin hefur sín áhrif. Ýmis vandamál eru þess eðlis að ekki er hægt að fást við þau öðruvísi en á alþjóðavettvangi, og þá með einhvers konar fullveldisframsali: Þar má nefna skattsvik, eftirlit með alþjóðafyrirtækjum, mengun og loftslagsbreytingar.

Það sem ekki síst ógnar lýðræðinu eru kjósendurnir sjálfir, segir Economist. Við lifum á tíma aðhalds og niðurskurðar í ríkisrekstri eftir langt uppgangsskeið. Þetta gerist á sama tíma og íbúar vestrænna lýðræðisríkja verða eldri. Stjórnmálamenn hafa ekki lengur fé til að hella á vandamálin og óánægjan með stórnmálin eykst. Traustið á pólitíkinni er í lágmarki. Hvarvetna fækkar fólki sem tekur þátt í pólitísku starfi eða er skráð í stjórnmálaflokka. 1950 voru 20 prósent Breta í stjórnmálaflokki, nú er það aðeins 1 prósent.

Það er ekki bara öfgaflokkum sem vex fiskur um hrygg heldur líka hreyfingum sem hæðast að stjórnmálunum. Economist nefnir Besta flokkinn á Íslandi og flokk Beppe Grillo á Ítalíu. Og blaðið segir – þetta kaldhæðna viðhorf í garð stjórnmálanna væri kannski í lagi ef fólk gerði engar kröfur til þeirra, en því er ekki svo farið, köfurnar eru miklar. Þetta gæti orðið eitruð blanda: Annars vegar miklar kröfur til stjórnmálamanna, hins vegar fyrirlitning á þeim.

Vitnað er í stjórnmálaspekinginn Alexis de Tocqueville sem sagði að lýðræði væri oftast nær sterkara en það virðist vera, glundroðakennt á yfirborðinu en undir niðri með með talsvert af duldum styrk. Það eru semsagt til leiðir út úr þessum vanda. Economist mælir meðal annars með því að takmarka áhrif sérhagsmuna, að hamla gegn útþenslu ríkisins, að þrengja að tilhneigingu stjórnmálamanna til að útdeila gæðum og loforðum, meðal annars með upptöku svokallaðrar fjárhagsreglu, að nýta betur sérfræðiþekkingu eins og gerðist þegar sjálfstæðir seðlabankar tóku yfir stjórn peningamála víða um heim á áttunda áratugnum eða þegar Svíar gátu bjargað lífeyriskerfi sínu með tillögum sem komu frá óháðri nefnd. Blaðið fjallar líka um gildi aukins lýðræðis í heimahéraði og kosti þess að reyna að fylgja alþjóðavæðingunni fremur en að streitast gegn henni.

Um hættur sem bíða ríkja þar sem lýðræði er vanþróað segir meðal annars þetta:

Ein ástæða þess að svo margar lýðræðistilraunir hafa misheppnast er að of mikil áhersla er lögð á kosningar en of lítil á aðrar nauðsynlegar hliðar lýðræðisins. Það þarf að halda valdi ríkisins í skefjum, og gæta að mannréttindum eins og fundafrelsi og frelsi til að mynda samtök. Sterkar stjórnarskrár leiða til stöðugleika til langframa og minnka hættuna á að óánægðir minnihlutahópar leggi til atlögu við stjórnvöld. Þær styrkja líka baráttuna gegn spillingu, sem er versta mein í þróunarlöndum. Á hinn bóginn er það eitt fyrsta merkið um að lýðræði sé að fara út um þúfur þegar kjörnir fulltrúar reyna að komast undan valdtakmörkunum sínum  – og það oft undir yfirskini meirihlutaræðis.

 

20140301_cna400

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Heillandi fól

Óttar Guðmundsson skrifar: Heillandi fól
Eyjan
Fyrir 1 viku

Safna undirskriftum til að skora á Alþingsmenn að stöðva málþófið

Safna undirskriftum til að skora á Alþingsmenn að stöðva málþófið