Franskur blaðamaður, Benjamin Carle að nafni, hefur nýlega lokið nokkuð skemmtilegri tilraun.
Carle ákvað að hlíta kalli stjórnmálamanna um þjóðleg innkaup og nota eingöngu franskar vörur. Hann vildi athuga hvort þetta væri hægt.
Carle býr í París og skammtaði sér 1800 evrur á mánuði.
Þegar hann byrjaði komst hann að því að einungis 4,5 prósent af hlutunum í íbúðinni hans voru frá Frakklandi. Allt hið útlenda var fjarlægt, allt frá ljósaperum frá Kína og grænum baunum frá Kenýa.
Hann hafði engan ískáp, ekkert sjónvarp og engar naglaklippur. Ekkert af þessu er framleitt í Frakklandi. Hann þurfti að losa sig við fötin sín og kaupa í staðinn frönsk föt sem eru reyndust dýrari. Engar gallabuxur eru framleiddar í Frakklandi.
Carle fór í búðir og keypti aðeins franskar vörur. Hann fann tannbursta sem var framleiddur í Frakklandi. Hann komst að því að franskir bílar eru að miklu leyti framleiddir erlendis, en fann loks lítið mótorhjól sem var franskt í gegn.
Hann þurfti að losa sig við David Bowie plöturnar sínar, og Daft Punk telst heldur ekki nógu þjóðlegt vegna þess að sú hljómsveit syngur á ensku.
En vínið var ekki vandamál.
Á endanum, eftir tíu mánuði, tókst Carle að ná því marki að 96,9 prósent af hlutunum sem hann notaði voru framleiddir í Frakklandi. Undantekningin voru nokkrir gafflar frá IKEA, kínverskur gítar og málning sem óvíst er hvaðan kom.
Um þetta má fræðast í gamansamri heimildarmynd sem gerð var um þessa tilraun Benjamins Carle.
Nú spyr maður hvort hægt væri að gera svipaða tilraun á Íslandi, að nota bara íslenskar vörur? Oft er talað um matvælaöryggi og frægt var þegar Sigmundur Davíð fór á íslenska kúrinn.
Fólk getur gert litla tilraun. Horft í kringum sig, skoðað fötin sín, matinn, nánasta umhverfi – hversu mikið er framleitt á Íslandi? Er hægt að reikna það yfir í prósentur?