Stjórnmálaflokkar hafa oft í sínum röðum fólk sem fer út á jarðsprengjusvæði – til að athuga hvort það springur í loft upp með málflutning sinn og hugmyndir.
Ef það springur ekki alveg í tætlur er hugsanlegt að afgangurinn af flokknum fylgi með, að minnsta kosti hluta úr leið.
Vigdís Hauksdóttir gegnir slíku hlutverki í Framsóknarflokknum. Flokksmenn eru ekki allir sammála henni, sumir fyrirverða sig jafnvel fyrir málflutning hennar. En þeir varpa henni samt ekki út.
Hún gerir líka það gagn að dreifa athyglinni – Vigdís getur verið að segja hluti sem taka sem fólk ærist yfir, en á meðan getur forysta flokksins og valdamenn í kringum hana verið að gera allt aðra hluti óáreittir.
Brynjar Níelsson hefur að nokkru leyti gengt svipuðu hlutverki í Sjálfstæðisflokknum, þó ekki í sama mæli. Hér áður fyrr var það Hannes Hólmsteinn Gissurarson látinn fara út á jarðsprengjusvæðin fyrir flokkinn. Hannes er þeirrar gerðar að hann sprakk oft í tætlur, en náði alltaf að koma sér saman aftur.
Í síðustu ríkisstjórn var það einkum Björn Valur Gíslason sem var í þessu vanþakkláta djobbi. Björn sprakk ekki alveg í loft upp, en hann datt út af þingi.
Það er ekki hægt að segja að stjórnmálamenn af þessu tagi verði fyrir einelti. Þeirra framkoma gengur beinlínis út á að ögra – ýta á mörk umræðunnar – með glannalegum, jafnvel fífldjörfum, málflutningi og töffaraskap.