Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mega eiga það að þeir eru nokkuð duglegir við að koma í fjölmiðla til að standa fyrir máli sínu.
Þetta verður ekki sagt um marga fyrirrennara þeirra í embætti – sérstaklega var erfitt að eiga við Davíð Oddsson og Jóhönnu Sigurðardóttur.
Að því sögðu verður að segjast eins og er að bæði Sigmundur og Bjarni hafa komið afar illa út úr fjölmiðlaviðtölum síðustu vikna.
Bjarni var í Kastljósi í gær og gerði sitt besta til að þæfa málin, vékst stöðugt undan að svara spurningum – hann var víðs fjarri sá Bjarni sem bjargaði pólitísku skinni sínu með einlægu viðtali fyrir kosningarnar síðasta vor.
Nálgun Bjarna í viðtalinu var misráðin – staða hans er veikari á eftir.
Menn velta fyrir sér hvers vegna liggi svo mjög á að slíta aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Það er misskilningur sem kom fram í viðtalinu að ekki sé hægt að hafa langt viðræðuhlé – um það eru dæmi.
Framsókn vill slíta sem fyrst, það er vandséð að það sé í hag Sjálfstæðisflokksins að fara fram með þeim hætti. Það sést á viðtökum meðal flokksmanna. Flokkurinn er þarna viðskila við stóran hluta atvinnu- og viðskiptalífsins – það er jafnvel rætt um að hann geti klofnað. Því er líkast að LÍÚ ráði lögum og lofum innan Sjálfstæðisflokksins.
Hví tók Bjarni þá í mál að bjóða upp á slík átök og vekja upp erfitt deiluefni sem maraði hálfdautt í kafi? Framganga stjórnarliðsins síðustu daga hefur orðið til þess að blása nýju lífi í Evrópusinna og líklega hefur fjölgað í þeirra röðum fremur en hitt.
Ein skýringin sem er nefnd er uppstokkun á ríkisstjórninni kunni að vera framundan – að Sjálfstæðismenn séu búnir að fá nóg af verkstjórn Framsóknar í stjórninni. Sagan hefur líka sýnt að það er erfitt fyrir flokk sem er jafn fylgislítill og Framsókn að vera lengi í forsætisráðuneytinu.
Samkomulagið gæti falið í sér að Bjarni tæki við sem forsætisráðherra og Sigmundur Davíð færi í fjármálaráðuneytið – eða eitthvert annað ráðuneyti. Á móti fær Framsókn framgengt ýmsum hugðarefnum sínum, eins og til dæmis endalokum aðildarumsóknarinnar að ESB.