Skotar hafa margar ágætar ástæður til að sækjast eftir sjálfstæði.
Skotland er býsna langt frá London – í marga áratugi hefur áhersla stjórnvalda í London verið á suðurhluta Englands þar fjármála- og þjónustustarfsemi ræður ríkjum.
Sérstaklega á þetta við um Íhaldsflokkinn. Honum er hjartanlega sama um Skotland og hefur svo verið frá tíma Thatchers.
Þetta er gagkvæmt, Íhaldsflokkurinn hefur sáralítið fylgi í Skotlandi.
Almennt hallast Skotar meira til vinstri en Englendingar. Þeir hafa áhuga á hinum sósíaldemókratísku Norðurlöndum og telja þau vera góða fyrirmynd. Skotland er líka býsna nálægt Norðurlöndunum í landfræðilegum skilningi.
Það er ekki óhugsandi mynd að sjálfstætt Skotland hefði aðild að Norðurlandaráði.
Englendingar –gamla heimsveldið sem hefur ráðist inn í fleiri lönd á jörðinni en önnur ríki – eru farnir að hafa í hótunum við Skota vegna sjálfstæðistilburða þeirra. Þetta hefur þveröfug áhrif – Skotar vilja örugglega ekki láta Eton-drengina hans Camerons segja sér fyrir verkum.
Og ekki heldur David Bowie sem óvænt fór að tjá sig um þessi mál og uppsker lítið hrós fyrir.
Annar maður sem skarst í leikinn með þeim hætti að það hefur öfug áhrif er José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sem fór að lýsa því yfir að það yrði nær ómögulegt fyrir Skota að vera í Evrópusambandinu.
Þetta verður að skoða í ljósi þess að Barroso óttast fordæmið sem sjálfstætt Skotland gæti haft á Íberíuskaga þar sem Katalóníubúar eru áhugasamir um að öðlast sjálfstæði frá Spáni.