Í grein í Wall Street Journal er spurt hvers vegna Íslendingar séu svo lélegir í vetraríþróttum – það rímar auðvitað ekki við nafn landsins.
Ýmsar skýringar eru gefnar, til dæmi að hér sé þrátt fyrir allt ekki sérlega mikill snjór, ís er nokkuð stopull – veðráttan er jú fremur umhleypingasöm –, við erum meira fyrir íþróttir sem eru stundaðar í upphituðum íþróttahúsum og svo erum við náttúrlega svo fá.
Við þetta má bæta í sambandi við skíðaíþróttina að fjöllin á Íslandi eru ekkert sérlega há – og svo er auðvitað spurning um hefð, það er til að mynda sáralítil hefð fyrir skautaíþróttum hér á landi.
Þannig að að þessu leyti erum við ekki lík frændum okkar Norðmönnum sem skara algjörlega fram úr í vetraríþróttum og heldur ekki Íslendingunum sem fluttu til Kanada en þeir fóru að leggja rækt við íþróttir sem stundaðar eru á ísi lögðum vötnum eins og íshokkí og curling.
The Winnipeg Falcons, lið skipað Vestur-Íslendingum, sigraði í íshokkí á Ólympíuleikunum í Antwerpen 1920. Íslendingarnir þurftu að flytja af landi brott til að ná slíkum árangri í vetraríþrótt.