Menn eru stundum að bera Ríkisútvarpið okkar saman við erlenda ríkisfjölmiðla – og gera jafnvel kröfur um að hér sé allt eins.
En það er gott að hafa í huga stærðarhlutföllin, það er í raun nær fyrir okkur að standa í samanburði við Færeyjar en hin Norðurlöndin – hvað þá Bretland eins og ég sá einhvers staðar á internetinu í gær.
Mér sýnist að íslenska Ríkisútvarpið fái um það bil fimm prósent af því fé sem norska og danska ríkisútvarpið hafa til að spila úr, en þegar Bretland er skoðað – og ég tek aftur fram að samanburðurinn er fráleitur – er RÚV með innan við 0,5 prósent af því sem BBC hefur.
Hér á vef Guardian má sjá skýringarmynd þar sem birtast valdar tölur úr reikningum BBC. Heildarinnkoma þeirrar stofnunar 2012 var 5,09 milljarðar punda, þrátt fyrir að hún hefði gengið í gegnum talsverðan niðurskurð.
Við sjáum svo hvernig skiptingin er milli sjónvarps- og útvarpsstöðvanna sem eru undir hatti BBC og þarna er líka liður sem nefnist laun til stjarna sem þéna meira en 500 þúsund pund á ári.
Bretar gera semsagt nokkuð vel við sinn ríkisfjölmiðil.
Það má svo sjálfsagt reikna þetta yfir í höfðatölu og komast að því að framlög til Rúv séu geysihá – en stundum er það heildartalan sem skiptir máli þegar skoðað er hvað menn hafa efni á að gera.