Guardian birtir í dag úrdrátt úr skjölum sem sýna hvernig æðsta valdaklíkan í Kína hefur komið fjármunum fyrir í skattaskjólum á Bresku Jómfrúreyjum.
Guardian kallar þá prinsa, þessa menn sem stjórna fjölmennasta ríki heims, að orðinu til í nafni kommúnisma, en í reynd að hætti lénsherra. Spillingin er geigvænleg, þarna koma við sögu valdamenn sem hafa komið í heimsókn til Íslands, Li Peng og Wen Jiabao.
Að öðrum kínverskum Íslandsvini.
Í frétt í Süddeutsche Zeitung segir frá „ósiðlegu“ tilboði í vínflösku. Hún kemur úr víntunnu frá 1656 sem er geymd í Ráðhúskjallaranum í Bremen og telst vera partur af menningararfleifð heimsins samkvæmt UNESCO.
Kínverskur kaupsýslumaður býðst til að kaupa flösku af þessu víni fyrir 150 þúsund evrur, jafnvirði um 25 milljóna íslenskra króna.
Í fréttinni segir að kaupsýslumaðurinn sé vínáhugamaður, meðlimur Kommúnistaflokksins og höfundur erótískra kvæða.
Jú, það er enginn annar en Huang okkar Nubo.