Það má sjá á skoðanakönnun um fylgi flokkanna í Reykjavík að áhrifin af brotthvarfi Jóns Gnarr eru farin að koma í ljós.
Samkvæmt skoðanakönnuninni er meirihluti Besta flokks og Samfylkingar fallinn, næði ekki nema 7 borgarfulltrúum.
Þar munar um að fylgi BF – sem nú er Björt framtíð – dalar um næstum tíu prósentustig.
Píratar koma hins vegar sterkir inn, eins og ég hafði spáð, með 11,4 prósenta fylgi. Fengju tvo menn kjörna, en VG aðeins einn, Framsókn engan. Píratar geta hæglega sótt meira fylgi ef þeir ná góðum frambjóðendum á lista.
Meirihlutinn þyrfti því að fá Pírata til liðs við sig eða VG ef hann vill starfa áfram. Það er raunar líklegast að sú verði þróunin.
Sjálfstæðisflokkurinn er ekki að ná sér á strik, er með 27,5 prósenta fylgi. Það er 5 prósentustigum minna en hann fékk í kosningunum 2010.