Í Noregi varð olíuævintýri, í Bretlandi olíuhneyksli.
Þetta skrifar Aditya Chakrabortty í grein í Guardian. Hann ber saman olíuvinnslu Norðmanna og Breta og kemst að þeirri niðurstöðu að Norðmenn hafi farið skynsamlega leið, stofnað sinn olíusjóð og fjárfest, íbúum Noregs til heilla. Ákveðið hafi verið að nota olíuauðinn til að búa til betra samfélag.
Í Bretlandi hafi olíupeningunum hins vegar verið veitt til hinna ríku, ekki síst í formi skattalækkana. Þar detti heldur engum í hug að tala um olíuævintýri. Um tíma var olían í Norðursjónum 3 prósent af þjóðartekjum í Bretlandi. Ríka fólkið stakk þessu í vasann, segir Chakrabortty sem vitnar í grein eftir aðalhagfræðing PricewaterhouseCoopers, John Hawksworth að nafni.
Í greininni veltir Hawksworth því fyrir sér hvernig Bretum hefði farnast með olíuauðinn hefði hann verið settur í fjárfestingar, eins og Norðmenn hafa gert. Sú leið var ekki farin, eins og ráða má af titli greinar Hawksworths sem nefnist Dude, where’s my oil money?