Atli Harðarson, skólameistari í Fjölbrautarskóla Vesturlands, skrifar grein þar sem hann fjallar um hugmyndir sem hann segir að séu á kreiki í menntamálaráðuneytinu.
Hann segir að í blaði frá ráðuneytinu komi fram tillögur um að umsagnir nemenda sem ljúka framhaldsskóla verði eitthvað á þessa leið:
a. Er verklega sjálfbjarga í daglegu lífi.
b. Hefur skýra sjálfsmynd.
c. Tekur ábyrga afstöðu til eigin velferðar.
d. Ber virðingu fyrir náttúru og umhverfi í alþjóðlegu samhengi.
e. Getur verið virkur og ábyrgur borgari.
Atli er mjög gagnrýninn á þetta – að umsögn eigi að lýsa „sjálfsmynd, lífsskoðunum og siðferðilegum mannkostum“.
En þetta kemur ekki alveg á óvart. Það eru ýmsar skrítnar hugmyndir á kreiki í menntamálum, eins og birtist glögglega í hinum mikla orðavaðli sem er að finna í námsskrá grunnskólans.