Við Kári fórum á Hobbitann í gær. Ekkert sérstaklega í frásögur færandi, nema mér fannst myndin, sem er númer tvö í röðinni, vera skemmtilegri en sú fyrri. Þetta er náttúrlega óralangt frá hinni sakleysislegu barnasögu Tolkiens sem ég las í eina tíð, en það verður bara að hafa það. Martin Freeman sem leikur Bilbo Baggins er mjög snjall leikari – tekur öðrum hobbitum langt fram.
Þegar við gegnum út úr bíóinu vorum við aðallega að ræða hinn mikla fjársjóð drekans Smeygins. Hann sat á fjalli fullu af gulli og gimsteinum sem gráðugir dvergar höfðu áður safnað. Það hafði reyndar orðið þeim að falli, samkvæmt sögunni.
Ég fór að reyna að skýra út fyrir Kára að ef allt þetta gull kæmist á markað í Vatnabæ sem er í nágrenni Fjallsins mikla myndu verða þar efnahagslegar hörmungar. Það myndi byrja með ægilegri hagbólu, en síðan myndi taka við óðaverðbólga og gullið yrði nærri verðlaust.
Ég bar þetta saman við það sem gerðist á Spáni á tíma conquistadoranna. Þá var flutt þangað óhemju magn af gulli og silfri frá Suður-Ameríku uns góðmálmarnir misstu verðgildi sitt – silfur varð ekki mikið verðmætara en steinvölur.
Nú sé ég að fleiri hafa verið að velta þessu fyrir sér eftir myndina. Á vef greiningardeildar Arionbanka má lesa um möguleg hagræn áhrif ferðar hobbitans og dverganna til fjallsins Sindarin Erebor. Þar er spáð verðhruni á gulli og demöntum í Miðgarði:
„Inni í fjallinu lúrir drekinn Smeyginn nefnilega á verulegum fjársjóði, sem fyrirséð er að gæti umturnað mörgum efnahagsstærðum og eignaverði í hagkerfi Miðgarðs væri honum ráðstafað hratt. Í Markaðspunktum dagsins fjallar greiningardeild um það hvernig hobbitar, dvergar, álfar og aðrir fjárfestar í Miðgarði geta brynjað sig fyrir áhrifum þessa.“
Drekinn Smeyginn liggur á gullinu sem gæti kollvarpað hagkerfi Miðgarðs.