Evrópusambandið stefnir óðfluga í nýja krísu. Nú tengist hún ekki evrunni eða efnahagsmálum sérstaklega, heldur kosningum til Evrópuþingsins sem verða haldnar 22. til 25. maí í vor.
Öfgaflokkar á hægri væng safna liði fyrir kosningarnar – aðrir flokkar virðast fljóta sofandi að feigðarósi.
Þar fer fremst í flokki Marina Le Pen, formaður Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi. Hún hefur tekið saman höndum við annan ógeðslegan öfgamann, Geert Wilders í Hollandi. Liðsmenn flokka þeirra munum mæta á kjörstað og tryggja sér fjölda þingmanna meðan aðrir sitja værukærir heima.
Nigel Farage í Bretland má eiga að hann vill ekki eiga samstarf við Le Pen og Wilders. Íhaldsflokkurinn hefur lagt sig í líma um að reyna að stöðva framsókn Farage en það gengur ekki vel. Le Pen og Wilders þykjast svo aftur ekki vilja tengsl við Jobbik í Ungverjalandi og Gyllta dögun í Grikklandi. Þeim gengur þó ekki annað til en hentistefna.
Það er ekki sérlega heppilegt að kosningarnar skuli vera stuttu eftir að íbúum Búlgaríu og Rúmeníu er heimiluð frjáls för og atvinna í ríkjum ESB. Í sjálfu sér er ekkert að því, en þetta er vatn á myllu öfgaflokka.
En nýja krísan í ESB mun hefjast af alvöru eftir kosningarnar, þegar liðsmenn Le Pen og Wilders og fjöldi fólks af því sauðahúsi sest inn á Evrópuþingið.