Fyrsta heimsmeistarakeppni í fótbolta sem ég fylgdist með var HM á Englandi 1966. Ég var ekki gamall, bara sex ára, en farinn að lesa blöðin. Þá var ekkert sjónvarp nema Kaninn – hann var ekki á mínu heimili. Þar var heldur ekki neinn fótbolti.
Ég man að strákum úr 5. flokki D í KR var smalað niður í gamla KR-hús, braggann sem nú er horfinn, og þar fengum við að horfa á kvikmynd sem sýndi helstu viðburði heimsmeistaramótsins. Ég held að ég muni rétt að um sama leyti – nokkru eftir að heimsmeistaramótinu lauk – hafi ég fengið að sjá svipaða kvikmynd í Nýja bíói.
Eitt af því sem stóð upp úr var snilli Eusebios, frægasta leikmanns portúgalska landsliðsins, hann var fæddur í Mósambík sem þá var portúgölsk nýlenda. Eusebio var besti leikmaður mótsins, skoraði 9 mörk, lið hans varð í þriðja sæti.
Nokkru síðar kom út bók um Eusebio sem börn fengu lánaða á bókasöfnum og lásu spjaldanna á milli. Þar las maður að Eusebio hefði byrjað að spila með tuskubolta heima í Mósambík. Því var ekki furða að það væri talinn stóratburður í íslenskri íþróttasögu þegar Eusebio kom til landsins 1968 með liði sínu Benfica. Þetta var liður í Evrópukeppni, íslensk lið voru nýlega farin að taka þar þátt – fáum árum áður hafði KR leikið gegn Liverpool.
Leikurinn var sögulegur. Það var sett met í áhorfendafjölda á Laugardalsvelli. Áhorfendurnir voru 18 þúsund. Eusebio náði ekki að sýna snilli sína, varnarmenn Vals sáu til þess. Maður leiksins var Sigurður Dagsson, markmaður Vals. Leikurinn endaði 0-0, það þótti mikið afrek hjá Völsurunum.
Seinni leikurinn sem leikinn var í Portúgal spilaðist öðruvísi, þar sigraði Benfica 8-1. Á þessum tíma töpuðu íslensk lið oft hroðalega fyrir þeim erlendu – en þau vildu samt vera með. Íslenska markið í Portúgal skoraði Hermann Gunnarsson – hver annar?
Nú er Eusebio látinn, 71 árs að aldri. Hann er enn talinn með bestu knattspyrnumönnum sögunnar. Og vegna þeirra tengsla sem hér er lýst var hann óhemju vinsæll á Íslandi.