Það er dálítið sérkennileg hugmynd að ætla að lýsa Reykjavík herlausa borg, eins og Jón Gnarr stefnir að.
Kannski hjómar þetta vel í eyrum frægðarmanna eins og Bonos – en þegar betur er að gáð er þetta eiginlega bara bull.
Hermennska hefur ekki sérlega mikið verið að íþyngja Reykjavík síðan á árum heimstyrjaldarinnar. Þá voru hermenn hér í ákveðnum tilgangi – við getum jafnvel sagt að hann hafi verið góður.
Herskip koma hingað stundum og það gæti jafnvel hugsast að komum þeirra fjölgi með auknum umsvifum í norðurhöfum.
Líti menn á hafsvæðið milli Íslands og Grænlands og norður af Íslandi sjá þeir að þar eru fáar hafnir.
Þegar siglingarnar á svæðinu aukast – til dæmis með meiri umferð farþegaskipa í norðrinu eða olíuvinnslu – verður nauðsynlegt að efla öryggið.
Og væntanlega munu varðskip og herskip vera þar til nokkurs gagns.
Danska herskipið Vædderen er tíður gestur í Reykjavíkurhöfn.