Milli Sjálfstæðisflokksins á Íslandi og Íhaldsflokksins breska hafa lengi verið gagnvegir. Mörg stefnumálin hefur Sjálfstæðisflokkurinn tekið upp eftir breska Íhaldinu og leiðtogar þess hafa oft verið í miklum metum meðal Sjálfstæðismanna á Íslandi.
Auðvitað ekki síst Margaret Thatcher, hún var dáð af hægrimönnum á Íslandi, ólíkt því sem var á meginlandi Evrópu. Þar var hún alltaf óvinsæl.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið mikið af Evrópustefnu sinni upp eftir svokölluðum eurosceptics innan breska Íhaldsflokksins. Hluti þeirra hefur reyndar leitað í flokk sem nefnist Ukip eða Sjálfstæðisflokkur Bretlands. Það er samt einkenni á leiðtogum íhaldsmanna í Bretlandi að þegar þeir komast til valda verða þeir miklu mildari gagnvart Evrópusambandinu. Til dæmis segja bæði David Cameron og William Hague að Bretland megi alls ekki yfirgefa ESB.
En þessi pistill átti ekki að fjalla um ESB, heldur um hjólreiðar.
Meðal íhaldsmanna í Bretlandi hefur verið mikil reiðhjólavakning. Sjálfur David Cameron hefur sést á reiðhjóli, en frægasti hjólreiðamaðurinn í Íhaldsflokknum er þó Boris Johnson, borgarstjóri í London. Hjólið er nánast eins og partur af ímynd hans.
Það er semsagt hætt að vera til vinstri að hjóla eins og var hér áður. Þá kom þekktur fræðimaður sem stundaði hjólreiðar í sjónvarp og sagði frá því að börn hrópuðu á eftir sér: „Bang, bang, kommúnisti, bang, bang!“
Nei – hægrimenn hjóla lika.
Í samræmi við þetta hefur líka ýmislegt breyst í umferðarmálum í London. Það má jafnvel segja að núorðið sé einkabíllinn óvelkominn í borginni. Ökumenn einkabíla þurfa að borga peninga til að fá að aka inn í London. Það eru byggð háhýsi í City, við þau eru engin bílastæði og engir bílastæðakjallarar. Sama er að segja um hæsta hús Evrópusambandsins, The Shard, það stendur ofan á lestarstöð. Þangað er eiginlega ekki hægt að fara á einkabíl.
Hjólreiðar hafa verið að eflast mjög í London. Enn eru þær ekki áhættulausar, sjálfur myndi ég helst óttast að lenda undir strætisvagni á hjólinu – en í borginni hefur til dæmis verið komið upp kerfi leigureiðhjóla líkt og er í París.
Oft er íslenskir Sjálfstæðismenn fljótir að læra af Íhaldinu í Bretlandi, en svo er ekki í þessu tilviki. Í leiðurum Morgunblaðsins er enn talað um að verið sé að „þrengja að einkabílnum“ þegar áformað er að þétta byggðina aðeins í Reykjavík og draga úr bílaumferð og hér í pistli á Vef-Þjóðviljanum er líka talað um „hatur á einkabílnum“.
Þeir ættu kannski að fara á námskeið til Boris Johnson – eða Gísla Marteins?
Reiðhjól af þessu tagi eru til leigu víða um London, til skammtímanota. Leigan hefur verið kölluð „Boris’ Bikes“ til heiðurs borgarstjóranum, Boris Johnson.