Susanne Moore skrifar athyglisverða grein um dauða millistéttarinnar í Guardian.
Hún rekur þar hvernig hefur verið þrengt að millistéttinni bæði austanhafs og vestan. „Nú erum við öll millistétt,“ sagði breskur stjórnmálamaður á tíma Blairs. Það reyndist vera rangt.
En nú eru menn farnir að vitna í Karl Marx, líka í ritum hægri manna eins og Daily Mail og The Spectator. Hann spáði þvi, segir Moore, að millistéttin myndi kremjast undir framrás síð-kapítalismans. Eftir yrði fámenn stétt ofurríkra og svo fjölmenn öreigastétt.
Hinir ríku verða ríkari, það hefur verið þróun undanfarinna áratuga. Og þeir eru ekkert á þeim buxunum að skila áunnum auði. Þeir gera allt sem þeir geta til að forðast að borga skatta, það þykir sjálfsagt. Þær byrðar lenda á millistéttinni.
Nú horfir hún upp á slæmar framtíðarhorfur fyrir börnin sín. Það kostar meira að mennta þau, það er engin trygging fyrir því að þau fái skikkanlega atvinnu, í mörgum tilvikum er mjög erfitt að eignast húsnæði. Hreyfanleiki milli stétta hefur farið minnkandi í Bretlandi og Bandaríkjunum.
En það er á gildum millistéttarinnar sem vestræn samfélög byggja, eða áttu að byggja: Reglusemi, sjálfsaga, sparnaði, hófsemi, vinnusemi. Gildi hinna ofurríku eru alt önnur: Græðgi, ágirnd, hroki, eyðslusemi, óheiðarleiki.
Eins og Susanne Moore segir hefur verið álíka auðvelt að taka fé frá millistéttinni og að taka sælgæti frá sofandi barni. En hún er sá grunnur sem vestræn lýðræðissamfélög byggja á. Hversu lengi sættir hún sig við þetta ástand? Situr hún heima í hljóðri örvæntingu, fer hún út á göturnar og mótmælir eða fer hún í snyrtilega röð til að ræna og rupla í Debenhams?