Margir furða sig á því hversu seint gengur að koma á viðræðum við erlenda kröfuhafa.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði reyndar í vikunni að kröfuhafarnir yrðu að koma til sín – ekki öfugt. Sú yfirlýsing kom ýmsum á óvart.
Það sem tefur er ekki síst að óvíst er hver hefur forræði í málinu. Framan af var það Seðlabankinn, en síðar ákvað Alþingi að stjórnmálin myndu eiga meiri þátt en ætlað var.
Það mun vera togstreita milli forsætisráðuneytis og fjármálaráðuneytis um hvort ráðuneytið eigi að fara með málið. Fyrir nokkrum dögum var skýrt frá því að Eiríkur Svavarsson, lögmaður sem starfaði í InDefence-hópnum, myndi stýra vinnu hóps sem hefur samskipti við erlendu kröfuhafana.
Um það hefur svo ekki heyrst meira, en sagt er að fjármálaráðuneytið hafi haft aðrar hugmyndir. Það þykir líka ógott fyrir Bjarna Benediktsson að missa forræði á þessu stóra máli til forsætisráðuneytisins – og sagt að nóg hafi Sjálfstæðismenn gefið eftir í samstarfinu við Framsókn.