Eins og Akureyri birtist mér í gærkvöldi er hún fegursti bær á Íslandi.
Fullt tungl skein yfir Eyjafjarðarbotni og baðaði fjörðinn með silfurljóma. Það örlaði á norðurljósum.
Algjör stilla. Nokkuð kalt en tært loft. Ljóstýrur hinum megin í firðinum.
Bærinn sjálfur hefur verið að breytast. Gömlul hús sem voru dauðaleg hafa verið endurnýjuð og það er að færast líf í þau.
Út um allt hafa sprottið nýjir og spennandi veitingastaðir og kaffihús. Meira að segja gamla KEA er búið að breytast. Það er orðið smart og líflegt.
Það er svo engu líkt að ganga upp meðal virðulegra húsa í Brekkunni og horfa yfir fjörðinn.
Setjast utan við kirkjuna sem er svo einkennilega vel staðsett, halda svo áfram upp í Lystigarð, sem er fegursti garður á Íslandi.
Á svona kvöldum vill maður helst ekki fara inn.
Ég var ekki með myndavél – og hefði hvort sem er ekki getað náð þessu. Orðin verða að nægja.