Það er rétt hjá Sigurði Má Jónssyni að það er áfall fyrir stefnu síðustu ríkisstjórnar og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins að ekki skuli vera meiri hagvöxtur á Íslandi. Hagvaxtarspárnar hafa lækkað sífellt og nú er vöxturinn orðinn afar rýr.
Reyndar var þetta komið í ljós fyrir kosningar, en þá létu menn eins og veruleikinn væri annar. Stjórnarliðar töluðu eins og hagvöxturinn yrði góður, stjórnarandstæðingar – núverandi ríkisstjórnarflokkar – töluðu eins og ekkert mál væri að keyra upp hagvöxtinn.
Menn voru meira að segja byrjaðir að deila honum út af mikilli rausn. Tónninn er annar núna.
En það er enginn auðfenginn vöxtur í boði. Og þeir sem vilja fjárfesta á Íslandi virðast sumir vera heldur vafasamir pappírar.
En þetta er áfall fyrir fleiri, til dæmis þá sem hafa talið að við værum á frábærri leið út úr kreppunni með séríslenskri aðferð – sem byggist að miklu leyti á krónunni.
Nú virðist þvert á móti hætta á að hún leiði til langvarandi stöðnunar – eins og Sigurður lýsir.