Auðvitað væri hægt að samþykkja einfaldlega þingsályktunartillögu í upphafi haustþings þar sem væri ákveðið að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið.
Umsóknin byggir á þingsályktun sem samþykkt var 2009, í tíð fyrri stjórnar.
Þetta væri eðlileg þingleg meðferð, auðvitað er það rétt hjá Birgittu Jónsdóttir að ráðherra getur ekki slitið viðræðunum upp á sitt eindæmi án atbeina þingsins.
Þessi þingsályktun yrði ábyggilega samþykkt, innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru færri evrópusinnar en var á síðasta kjörtímabili.
En þá er spurningin hversu stjórnarflokkarnir telja sig bundna af fyrirheitum um þjóðaratkvæðagreiðslu sem voru gefin fyrir kosningar. Það á sérstaklega við um Sjálfstæðisflokkinn þar sem þetta varð mikið hitamál. Þar eru viðhorfin líka margvíslegri Foringjaræðið virðist vera sterkara innan Framsóknar.
Það verður ekki bæði haldið og sleppt. Stjórnarflokkarnir virðast nefnilega vera nokkuð tvístígandi. Það var eins og afturköllun IPA-styrkjanna kæmi stjórninni á óvart. Og kannski finnst stjórninni ágætt að hafa í bakhöndini möguleikann á aðild Íslands, á tíma þegar hagvöxtur virðist seint ætla að taka við sér, landið er læst inni í gjaldeyrishöftum og í gangi eru fríverslunarviðræður milli Bandaríkjanna og ESB sem gætu reynst afdrifaríkar.
Þá getur reynst gott að vera ekki alveg búinn að slíta viðræðunum – þó ekki nema vegna samningsstöðu þjóðarinnar.