Eitt af því sem Ísland vantar sárlega eru fleiri íbúar. Milljón væri fínt. Þrjár milljónir enn betra. Þá gæti verið fleiri en ein borg á Íslandi.
En þess er langt að bíða að fólksfjöldinn verði slíkur.
Meðan getum við huggað okkur við að hafa þó ferðamenn.
Eða eins og Pawel Bartoszek skrifar á vef Deiglunnar:
„Maður hefur vissulega séð Íslendinga skokkandi eða hjólandi. Stundum má sjá íslenskar mæður og íslenska feður með barnavagna eða íslensk hjón í labbitúr.Einstaka sinnum má sjá Íslendinga með innkaupapoka, en bara niðri í bæ. En fjórir fertugir edrú íslenski karlmenn í Hlíðunum. Það er nýtt.
Þetta fær mann reyndar til að átta sig á því þvílík vítamínssprauta fyrir allt mannlíf ferðamenn geta orðið. Þeir labba í stað þess að keyra. Þeir borða á veitingastöðum. Þeir skoða söfn. Þeir versla mat í allt of dýrum búðum. Og stundum gera þeir kröfur um að eitthvað sé smekklegt. Sem er gott.
Það eru ekki mörg ár síðan þeir sem ferðuðust um Ísland gátu helst valið um það hvort þeir vildu fá kokteilsósu með hamborgaranum eða ekki. Þetta horfir nú allt til batnaðar. Á Ísafirði, þar sem þessi orð vpru skrifuð, taldi ég minnst sex veitingastaði. Svona með staði vínveitingaleyfi og kvöldmatseðil. Það er mjög jákvætt.
Í Reykjavík keyrir djammlífið nú á tveimur vöktum. Margir Íslendingar mæta, líkt og áður, ekki í bæinn í þann fyrr en RÚV spilar útvarpsfréttir í dagskrárlok. En sé Laugavegurinn genginn um sjöfréttaleytið má sjá hóflega drukkið fólk í flís og polýester leitandi að hótelinu sínu eða pítsusneið.
Ég segi: “Takk, ferðamenn”. Og þá meina ég ekki fyrir gjaldeyrinn. Nóg er röflað um þennan fríkings gjaldeyri. Takk fyrir að gera Ísland örlítið meira klassý.“