Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, hvetur til þess að sala á áfengi sé rædd „án ofstækis“.
Ofstæki er varla gott orð í þessu sambandi – hér hefur lengi verið ríkiseinkasala á áfengi. Stundum heyrast raddir um að því mætti breyta, en þær fá yfirleitt lítinn framgang.
Meðal stjórnmálamanna er yfirleitt ekki mikill áhugi á þessu máli.
Elliði telur að einokunin sé ekki að virka. Hann segir að stöðug aukning hafi verið á sölu áfengis. Það er þó ekki alveg rétt, eins og hann nefnir reyndar innan sviga, kreppan hefur haft áhrif á söluna.
Þegar borið er saman við aðrar þjóðir drekka Íslendingar frekar lítið af áfengi. Það kann að koma sumum á óvart, en staðreyndin er sú að þótt Íslendingar drekki oft í óhófi og verði fullir, þá drekka þeir frekar sjaldan. Það tíðkast til dæmis ekki eins og í Bretlandi að fara út á pöbb eftir vinnu og fá sér tvo, þrjá eða fleiri bjóra.
Það er athyglisvert að sjá hvernig samanburðurinn er varðandi neyslu á vínanda, en það er mælikvarðinn sem er notaður á áfengisneysluna. Árið 2011 drukku Íslendingar 6,31 lítra af vínanda, þarna erum við með allra lægstu þjóðum í Evrópu. Norðmenn drekka meira en við og líka Svíar og Finnar svo ennþá meira. Allar þessar þjóðir hafa ríkiseinkasölu á áfengi.
En það er stórt stökk upp í Dani þar sem ríkir frjálsræði í áfengissölu. Danir drekka, samkvæmt ofannefndri töflu, tvöfalt meira en Íslendingar, eða 13,37 lítra af vínanda á ári. Bretland er á mjög svipuðu róli, með aðeins meiri neyslu en Danir.
Í Danmörku og Bretlandi er mjög auðvelt aðgengi að áfengi, það er hvarvetna fáanlegt og þykir eðlilegt að drekka við öll tækifæri. Á Íslandi er áfengi dýrt og frekar erfitt að nálgast það. En munurinn á neyslunni er sláandi.
Maður gæti jafnvel komist að þeirri niðurstöðu að áfengisstefnan á Íslandi sé að virka ágætlega.