Í grein um niðurskurð á vefsíðu Vigdísar Hauksdóttur rekst hvað á annars horn. Vigdís situr í hópi sem á að hagræða í ríkisrekstrinum.
Nú er reyndar mikil spurning hvort ríkisstjórnin hafi yfirleitt umboð frá kjósendum til að skera mikið niður hjá ríkinu. Niðurskurður var ekki ræddur fyrir kosningar nema lítillega. Kosningaloforð hljómuðu upp á allt annað en niðurskurð.
Vigdís vitnar í ríkisstjórn Bretlands og George Osborne fjármálaráðherra sem hafi „boðað mikinn niðurskurð á ríkisútgjöldum“.
Staðreyndin er sú að niðurskurðurinn í Bretlandi hefur staðið í mörg ár. Hann er raunar mjög umdeildur – margir hafa haldið því fram að hann hafi haft vond áhrif á efnahagslífið, það hafi fremur þurft örvun en niðurskurð. Margt af því sem breska stjórnin hefur gert hefur líka komið mjög illa við tekjulága hópa. Og atvinnulífið er dróma, öfugt við það sem Vigdís segir.
Aðalmálið er þó að niðurskurðurinn var partur af stjórnarstefnunni frá upphafi – niðurskurður var partur af kosningaprógrammi Íhaldsflokksins í kosningunum 2010.
Það má örugglega skera niður í ríkisrekstrinum, eins og Vigdís segir, en það er ekki heldur rétt að síðustu ríkisstjórn hafi skort kjark til þess. Síðasta sjórn stóð fyrir mesta niðurskurði á ríkinu fyrr og síðar. Það var kaldhæðni örlaganna að þetta skyldi koma í hlut vinstri flokka. En eftir hrunið 2008 var ekki annað til ráða.
En erum við þá komin á þann stað að niðurskurður sé aðalmál ríkisstjórnarinnar – þvert á það sem var rætt fyrir kosningar?