Hún er dálítið skrítin umræðan um skýrsluna um Íbúðalánasjóð.
Það er látið eins og niðurstaða skýrslunnar sé sú að 90 prósenta lánin hafi verið þess valdandi ein og sér að allt fór í rugl í íslensku efnahagslífi.
En auðvitað dettur engum í hug að halda þessu fram.
Þetta var samfelld þróun sem stóð fyrsta áratug aldarinnar. Stjórnvöld misstu tökin á efnahagsslífinu.
Ríkisstjórnir, Seðlabanki og Fjármálaeftirlit létu sér vel líka að hér ríkti ástand ofurþenslu ár eftir ár og bættu í með ýmsum aðferðum.
Þetta gat ekki endað öðruvísi en illa.
Íbúðalánasjóður er einn þáttur í þessu – ríkisrekinn íbúðalánabanki sem missti algjörlega sjónar á því sem var skynsamlegt og eðlilegt og var því miður stjórnað af misjafnlega hæfum flokksbroddum. Við fáum svo væntanlega annað púsl í myndina þegar kemur skýrsla um sparisjóðina innan tíðar.
Það er engin þörf á að skipa nefnd til að endurskoða skýrslu rannsóknarnefndarinnar um Íbúðalánasjóð. Hins vegar er brýn þörf á að ákveða hvert eigi að vera framtíðarhlutverk þessarar stofnunar – ef eitthvað – og hvernig eigi að grynnka á skuldum hans án þess að það verði illbærilegt fyrir skattgreiðendur.