Það má vera að framrás tækninnar sé óstöðvandi, en hún gerir heiminn kannski ekki alltaf skemmtilegri.
Út um allan heim loka bókabúðir eða breytast í minjagripasjoppur. Þessi þróun hefur verið sérlega skæð í Bandaríkjunum. Bókabúðir eru menningarstofnanir, þær eru það ekki síður í Reykjavík og París eða New York.
Það er lítið varið í að rúlla yfir síður á Amazon miðað við þá dýrð að eyða tíma í góðri bókabúð.
Kannski er ég fullur af fortíðarþrá, en eitt sinn voru hljómflutningstæki dýrmætasta eign hvers ungmennis. Það var sérstök ánægja fólgin í því að fara í plötubúð og kaupa nýja hljómplötu, opna hana, setja á fón og skoða umslagið. Plötuumslög voru oft frábær hönnun – og maður las textana með – þetta voru gripir sem maður vildi eignast.
Nú eignast fólk ekki einu sinni tónlist lengur, heldur spilar hana af vefsíðum eins og Spotify. Það er furðulega dapurt og kalt, það vantar einhvern innileika sem er oft svo víðs fjarri í hinum stafræna heimi.
Svo er það tónlistin sjálf. Líklega hefur fátt farið verr með hana en þessi kuldalega stafræna tækni. Lög eru beinlínis búin til í tölvum og allt er hægt að laga eftir á. Dósahljóð einkennir margt af þessu. Það er ekki furða þótt margir tónlistarmenn leiti aftur í hliðræna tækni – það er til dæmis ótrúlegt að heyra muninn á analog hljómborðum sjöunda og áttunda áratugarins og digital hjómborðum sem síðar komu og eyðilögðu mikið af tónlist.