Eitt af því sem verður forvitnilegt að sjá varðandi nýju ríkisstjórnina er hvernig henni tekst að semja við lífeyrissjóðina.
Síðustu ríkisstjórn gekk afar illa að eiga við þá – enda eru stjórnendur lífeyrissjóðanna ekki tilbúnir að tapa peningum umfram það sem þeir gerðu í hruninu.
Þarna er annars vegar horft til Íbúðalánasjóðs. Hann nýtur ríkisábyrgðar – eða svo virðist. Það eru lífeyrissjóðir sem eiga mest af skuldabréfum í Íbúðalánasjóði og munu væntanlega þurfa að taka á sig tap vegna stöðu hans.
Andri Geir Arinbjarnarson skýrir þetta ágætlega út í bloggi hér á Eyjunni.
Og svo er það skuldaniðurfellingin mikla sem ríkisstjórnin hefur boðað.
Hún verður varla gerð nema með tilstilli lífeyrissjóðanna. Það er ekki nóg að semja við erlenda kröfuhafa um að afhenda íslenskar eignir með miklum afslætti eins og stefnt er að. Það þarf að vera einhver kaupandi að þessum eignum þegar búið er að ganga frá samningunum við kröfuhafana.
Þar kemur varla aðrir til greina en lífeyrissjóðirnir – þeir eiga peningana. En verður hægt að telja þá á að kaupa til dæmis banka á Íslandi og jafnvel koma með fé heim frá útlöndum til slíkra fjárfestinga.