Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, skrifar grein á vef Pressunnar í gær. Þar segir hann að ríkisstjórnin geti ekki slitið viðræðum við Evrópusambandið nema með því að málið komi til kasta Alþingis.
Eins og Sveinn Andri segir samþykkti Alþingi 16. júlí 2009 að sækja um aðild að ESB.
Nýr utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, sagði fyrir nokkrum dögum:
„Það verður illa haldið áfram, eiginlega bara alls ekki, viðræðum við Evrópusambandið undir stjórn þess utanríkisráðherra sem hér stendur.”
Eins og Sveinn Andri orðar það verður þetta ekki skilið öðurvísi en að utanríkisráðherrann ætli að tilkynna Evrópusambandinu að viðræðunum verði hætt.
En þar stendur hnífurinn í kúnni, samkvæmt Sveini Andra:
„Vandinn er hins vegar sá að Alþingi samþykkti að fela ríkisstjórn að sækja um aðild, hefja viðræður og bera síðan aðildarsamning undir þjóðina, allt eftir ferli og ramma sem utanríkismálanefnd lagði upp með og er álit utanríkismálanefndar hluti af ályktun þingsins. Þessi þingsályktun er enn í gildi þótt nýtt Alþingi hafi verið kosið og ný ríkisstjórn skipuð. Ríkisstjórnin getur trauðla sett viðræðurnar í ferli sem er á skjön við þann vilja Alþingis sem endurspeglast í ofangreindri þingsályktun.
Ríkisstjórnin getur lagt sínar pólitísku línur í sínum stjórnarsáttmála, en ríkisstjórnin er eftir sem áður jafn bundin af ályktun Alþingis og síðasta ríkisstjórn var. Mjög hæpið er að hægt sé að fara í hið breytta ferli sem ríkisstjórnin boðar á aðildarviðræðum getur án atbeina Alþingis og stjórnskipulega er sannarlega óheimilt að slíta viðræðunum við ESB, með þeim hætti sem nýr utanríkisráðherra boðar, til þess þarf atbeina Alþingis; nýja þingsályktun.“