Paulo Coelho er langfrægasti rithöfundur Brasilíu. En hann kaus að fara ekki til Frankfurt á bókamessuna, þrátt fyrir að Brasilía sé þar heiðursgestur. Myndir af Coelhoeru þó út um allt í Frankfurt, meðal annars á strætisvögnum.
Þetta gerir hann í mótmælaskyni. Hann skýrir það út í viðtali við blaðið Die Welt sem hann birtir svo á bloggi sínu.
Hann segir að menningarmálaráðuneyti Brasilíu hafi boðið 70 meintum höfundum. Sjálfur segist hann þó ekki kannast við nema 20 af þeim, hinir séu vinir og vinir vina – klíkuskapur sé allsráðandi. Það sé mikið af ungum og spennandi höfundum í Brasilíu, en þeim sé ekki boðið.
Um leið gagnrýnir hann spillingu í heimalandi sínu. Það sé mikið fjallað um uppgang efnahagslífsins í Brasilíu, en fátækt fólk fái ekki að njóta hans. Spilling og ofbeldi sé út um allt. Coelho gagnrýnir að byggðir séu stórir íþróttaleikvangar í staðinn fyrir spítala, skóla og almenningssamgöngur.
Coelho talar í viðtalinu um veru sína á samfélagsmiðlum eins og Twitter og Facebook. Það er vitnað í tímaritið Forbes þar sem segir að hann sé annar áhrifamesti maðurinn á Twitter, á eftir Justin Bieber. Coelho segir að þetta sé gaman, betra en til dæmis að árita bækur upp á gamla mátann, þar sem nokkrir þeir fremstu í röðinni komast að, en þeir sem eru aftarlega verði hundfúlir. Hann geti ekki áritað bækur átta tíma á dag.